Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir það barnalegt og heimskulegt hjá Bjartri framtíð að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu vegna trúnaðarbrests í tengslum við uppreist æru, það hafi verið margar aðrar ástæður til að rjúfa ríkisstjórnina.
Segir hann í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í helgarblaði DV að hann hefði viljað að ríkisstjórnin hefði endurskoðað fimm ára áætlun ríkisfjármála og sett aukið fé í heilbrigðiskerfið og menntakerfið.
Hvernig lýst þér á pólitíska ástandið eins og það er þessa stundina?
Mér finnst það býsna dapurlegt. Ég átta mig ekki almennilega á því hvernig menn settu saman þessa ríkisstjórn sem nú var að segja af sér. Ég átta mig heldur ekki almennilega á því á hvaða forsendum menn rufu þessa ríkisstjórn. Mér finnst að að baki þessu búi heldur moðkenndar hugsanir. Svo maður fari ekki út í að ræða þessi barnaníðingsmál sem eru í sjálfu sér alltof flókin Ég viðurkenni að vísu fúslega að ef annar hvor þessara níðinga sem menn eru að tala um núna hefði veist að afkomendum mínum þá hefði ég ósköp einfaldlega drepið hann með berum höndum. En við búum í réttarríki og við erum ekki með dauðarefsingu. Einn af hornsteinum þessa réttarríkis er að þegar menn eru búnir að taka út sína refsingu þá eigi þeir að fá mannréttindi. Að vísu finnst manni gjörsamlega fáránlegt að kalla eitthvað í þessu „uppreist æru“ vegna þess að maður sem hefur níðst á barni fær aldrei æru sína aftur og á ekki að fá hana aftur. Ekki í þessu lífi og ekki í neinu lífi.
Það hefði mátt taka á þessum málum á annan hátt en gert var af hálfu stjórnvalda en þetta er ekki ástæða til að rjúfa ríkisstjórn. Mér finnst það barnalegt og heimskulegt. Þarna láta menn skrýtnar tilfinningar bera sig ofurliði. En ég hefði getað séð margar aðrar ástæður til að rjúfa þessa ríkisstjórn. Ég hefði viljað að þessi ríkisstjórn hefði endurskoðað fimm ára áætlun ríkisfjármála og sett aukið fé í heilbrigðiskerfið og menntakerfið.