„You ain´t seen nothing yet,“ segir Össur Skarphéðinsson fyrrverandi ráðherra á Fésbók. Hann segir stjórnmálin pólaríserast þar sem flokkarnir skilji sig frá auðri miðju sem enginn flokkur sem stendur undir sjálfum sér hefur áhuga á að fylla. Frekar keppast þeir um hlutverk statista í tilþrifalitlu leikriti eftir Katrínu Jakobsdóttur:
Mélkisurnar á þingi láta aðkrepptan Sjálfstæðisflokk í bullandi vanda komast upp með að neita að afgreiða einfalda breytingu sem heldur stjórnarskrármálinu opnu. Meira að segja Birgitta og Píratar bukka sig fyrir valdinu.
Segir Össur að sjálfsagt hafi stjórnarslitin verið viðburður sem aðallega hafi stafað af innanflokkserjum innan Bjartrar Framtíðar og bensínleysi formannsins Óttars Proppé:
Við lok þings og upphaf kosningabaráttu virðast flokksræflarnir svo óundirbúnir að það er eiginlega ekkert sérstakt mál á dagskrá. Stjórnmálin eru satt að segja í málefnalegri lognmollu. Við þannig aðstæður getur mikill stormur rifið sig upp úr engu.
Slíkur stormur sé einmitt líklegur til að verða blásinn upp af Sigmundi Davíð:
Hann er í dag eini maðurinn sem hefur getu til að setja íslensk stjórnmál á hvolf. Hið særða dýr brýst harðast um. Fáum dylst að Sigmundur virðist trúa því sjálfur að hann sé fórnarlamb illra afla og ofsóttur úr öllum áttum (einkum af RÚV og forystu Framsóknar, en líka alþjóðlegum vogunarsjóðum, fyrrverandi forseta og Bjarna Ben). Sjálfur hefur hann talað einsog hann sé einskonar arftaki Jónasar frá Hriflu, og hefur sennilega gleymt að Jónas endaði einn á pólitískum berangri, og pólitískri útför Hriflu-Jónasar var lýst löngu fyrir andlátið.
Píslarvætti sé hins vegar mjög sterkt eldsneyti og Sigmundur líti réttilega á að hann hafi ekki lengur neinu að tapa.
Slíkir stjórnmálamenn grípa til örþrifaráða, einkum í orrustum sem snúast um pólitískt líf þeirra og dauða. Sigmundur er að fara í slíkan slag.
Sigmundur hefur stundum talað á þannig nótum að hann gæti freistast af nylgju þjóðernishyggjunnar sem skellur nú víða um Evrópu. Hún á sitt andlag á landi frosts og funa. Það yrði örþrifaráð sem gæti farið á alla vegu. Simbaflokkurinn gæti fjarað út eftir heldur klaufalegt start. En með Útvarp Sögu í broddi fylkingar og sérstaka vild hjá Morgunblaðinu, þar sem sömu sjónarmið gægjast fram í ritstjórnargreinum, þá gæti Simbaflokkurinn með ófyrirleitnum málflutningi allt eins sópað upp fylgi Flokks fólksins, helmingað Framsókn og tætt flykki úr síðu Sjálfstæðisflokksins.
Líklega verða stjórnmálin ekki söm og áður. You ain´t seen nothing yet – eins og sagt var í frægu bréfi sem birt var á forsíðu Moggans.