Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir að Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hafi að mörgu leyti hagað sér eins og auli sem stjórnmálamaður. Í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í helgarblaði DV var Kári spurður um Óttarr sem og hlutverk stjórnmálanna.
Gerðirðu þér vonir um að Óttarr Proppé myndi standa sig vel í starfi heilbrigðisráðherra?*
Nei, því miður finnst mér hann að mörgu leyti hafa hagað sér eins og algjör auli sem stjórnmálamaður í ráðherrastól. Eins og mér fannst hann stundum tjá sig skemmtilega sem almennur þingmaður úti í sal.
Ég átti með honum, og tveimur öðrum mönnum, einn fund sem entist í nokkra klukkutíma. Mér fannst það heldur dapurlegar samræður vegna þess að það var ljóst að hann ætlaði ekki að gera nokkurn skapaðan hlut.
Það skiptir samt kannski ekki meginmáli hver er heilbrigðisráðherra vegna þess að þetta er svo stór málaflokkur að ef maður er ekki með forsætisráðherra eða fjármálaráðherra með sér í liði þá gerist ekkert.
Komum þá aftur að hlutverki stjórnmálamanna. Er einhver stjórnmálaflokkur sem þú treystir umfram annan til að sinna þessum málaflokki almennilega?*
Nei. Þegar kemur að því að hlúa að, ekki bara heilbrigðiskerfinu, heldur velferðarkerfinu almennt finnst mér enginn stjórnmálaflokkur raunverulega hafa staðið sig. Horfum til þess sem eina hreinræktaða félagshyggjuríkisstjórnin í sögu lýðveldisins gerði eftir hrun. Þar var fyrst og fremst skorið niður í velferðarkerfinu.
Svo horfir maður til borgarinnar. Borgarstjórn undir stjórn Dags B. Eggertssonar eyðir fé í að mála málverk eftir Erró á gafla á blokkum í efra Breiðholti á sama tíma og mikill skortur er á fjármunum bæði til leik- og barnaskóla. Sama borgarstjórn eyðir miklu fé í að skreyta Miklubrautina milli Snorrabrautar og Lönguhlíðar á sama tíma og skólakerfið er í molum.
Ég skil hvorki borgarstjórn né ríkisstjórn sem segist starfa í nafni félagshyggju og forgangsraðar á þennan hátt.