Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi Framsóknar og Flugvallarvina hefur dregið til baka framboð sitt í 1. sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir komandi Alþingiskosningar. Segir hún í færslu á Fésbók að þegar hún hafi boðið sig fram þá hafi hún viljað trúa því að flokkurinn myndi standa sem einn maður, það hafi ekki verið raunin:
Þegar ég ákvað að gefa kost á mér í 1. sætið á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík norður fyrir næstu kosningar vildi ég trúa því að flokkurinn myndi standa saman sem einn maður og ganga samheldinn til kosninga. Því miður er það ekki raunin. Ég hef því ákveðið að draga framboð mitt til baka,
segir Guðfinna í færslu sinni. Guðfinna hefur stutt Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem hefur sagt sig úr Framsóknarflokknum og ætlar að stofna nýtt framboð. Guðfinna hefur ekki lýst yfir stuðningi við framboð Sigmundar og hefur hún ekki svarað fyrirspurnum Eyjunnar um hvort hún hyggist bjóða sig fram með honum.