Björk Vilhelmsdóttir fyrrverandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar birti mynd af kjörseðlinum sínum á Fésbók en tók hana út þegar henni var bent á að það sé kolólöglegt. Björk kaus utankjörfundar í Reykjavíkurkjördæmi Suður en hún er á leið til Palestínu til að tína ólífur. Þrátt fyrir að ekki sé búið að birta framboðslista var það skýrt að hún hafi kosið Samfylkinguna:
Þá veit ég að Samfylkingin leggur megináherslu heilbrigðismál, menntamál, umhverfismál, mannréttindi og jöfnuð. Jöfnuður vinnur jafnt gegn siðlausri auðsöfnun og fátækt og vinnur þannig að réttlæti um heim allan,
segir Björk á Fésbók. Hildur Lillendahl Viggósdóttir starfsmaður Reykjavíkurborgar var fljót að bregðast við myndbirtingu Bjarkar og sagði:
Kæra Björk, það er kolólöglegt að birta ljósmynd af atkvæðaseðli sínum.
Björk svaraði því með því að spyrja hvort hann væri þá ekki gildur. Hildur svaraði að bragði:
Jú, en plís eyddu myndinni. Þú mátt ekki einu sinni taka hana, hvað þá birta hana. Ef þú mættir þetta væri hægt að nota þennan möguleika til að þvinga fólk til að taka svona myndir og sanna þar með hvernig það greiðir atkvæði. Það er ekki að ástæðulausu sem kosningar eru leynilegar.
Guðrún Ögmundsdóttir fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar sagði svo þegar hún áttaði sig á hvað Björk hafði gert:
okej eyddueyddueyddu
Björk eyddi í kjölfarið myndinni af kjörseðlinum og birti þess í stað aðeins mynd af umslaginu af kjörseðlinum. Ekki náðist í formenn yfirkjörstjórna í Reykjavík við vinnslu fréttarinnar.
Eyjan hvetur alla til að nýta kosningarétt sinn og þá sem komast ekki á kjörstað laugardaginn 28.október að kjósa utankjörfundar, en að sama skapi að fara eftir lögum og tryggja að enginn geti séð hvaða framboð hlaut atkvæðið en í 85.grein í lögum um kosningar til Alþingis segir eftirfarandi:
Þegar kjósandi hefur gengið frá kjörseðlinum samkvæmt framansögðu brýtur hann seðilinn í sama brot og hann var í þegar hann tók við honum, gengur út úr klefanum og að atkvæðakassanum og leggur seðilinn í kassann í viðurvist fulltrúa kjörstjórnar. Kjósandi skal gæta þess að enginn geti séð hvernig hann greiddi atkvæði.