Öll stjórn Framsóknarfélags Mosfellsbæjar hefur sagt sig úr flokknum. Þar að auki hefur þingmaðurinn fyrrverandi Þorsteinn Sæmundsson sagt sig úr flokknum. Það kemur í kjölfarið á úrsögnum formanna Framsóknarfélaganna í Reykjavík og á Þingeyri. Sem og formanni Félags ungra Framsóknarmanna í Reykjavík. Hafa margir af þeim sem hafa yfirgefið flokkinn síðastliðinn sólarhring lýst formlega yfir stuðningi við Sigmund Davíð Gunnlaugsson og nýtt framboð hans.
Þorsteinn segir í yfirlýsingu til fjölmiðla að lítið hafi verið gert til þess að græða sár innan flokksins frá formannskjörinu í fyrra:
Nú í aðdraganda kosninga hefur sá hópur sem nú stjórnar flokknum ákveðið að ganga milli bols og höfuðs á þeim ,,háværa minnihluta” sem varð undir á síðasta flokksþingi. Markmiðið virðist vera að losa sig við fyrrum formann flokksins og þá sem stutt hafa hann dyggilegast. Þetta markmið hefur tekist. Undirritaður hefur í dag tilkynnt úrsögn sína úr Framsóknarfloknum, nokkuð sem ég taldi að aldrei myndi gerast. Ég þakka því góða fólki í Framsóknarflokknum sem ég hef starfað mest með og met mikils fyrir samstarfið og samveruna og vonast til að hitta það sem flest fyrir á nýjum vettvangi,
segir Þorsteinn í yfirlýsingu sinni. Öll stjórn Framsóknarfélags Mosfellsbæjar hefur einnig sagt sig úr flokknum vegna atburða síðustu daga:
Við kjósum að starfa ekki í flokki þar sem vinnubrögð síðastliðins árs ætla að vera viðvarandi. Okkar mat er að engar sáttaleiðir hafi verið gerðar eftir aðförina sem gerð var að fyrrverandi formanni flokksins á síðasta Flokksþingi og nú séu komin öfl til valda sem við eigum enga samleið með.
Eyjan hefur í morgun reynt að ná tali af stjórn Framsóknarflokksins í Reykjavík, Jóna Björg Sætran varaborgarfulltrúi Framsóknar og Flugvallarvina sagði í samtali við Eyjuna að ótímabært væri að ræða stöðuna innan flokksins.