Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar gefur lítið fyrir orð Sjálfstæðismanna um að þeir hafi ekki verið búnir að samþykkja skattahækkanir í fjárlagafrumvarpinu. Fjárlagafrumvarpið hafi verið búið að fara í gengum þingflokka, ríkisstjórn og unnið með tillliti til fjármálaáætlunar.
Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði á kosningafundi Sjálfstæðisflokksins og helgina og ítrekaði á Fésbók:
„Og þá verðið þið spurð í kosningabaráttunni framundan: En voruð þið ekki búin að samþykkja allskonar skattahækkanatillögur frá fjármálaráðherra Viðreisnar? Hækkun á bensíni, dísilolíu og virðisaukaskatti á ferðaþjónustu? Svarið er NEI. Engin af þessum tillögum Viðreisnar hafði hlotið afgreiðslu í þeim þingnefndum, sem undir forystu Sjálfstæðismanna höfðu með þær að gera. Fjármálaráðherra var líka fullkunnugt um að við höfðum marga fyrirvara gagnvart þeim öllum – og að engin þeirra færi óbreytt í gegnum þingið með stuðningi Sjálfstæðismanna.“
Benedikt sagði í viðtali í þættinum Harmageddon í morgun að hann skilji núna hvers vegna Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins taldi í viðræðum flokkanna í lok síðasta árs og í janúar að eins þingmanna meirihluti á þingi væri mjög tæpur:
Það var vegna þess að hann vissi að það yrðu veikleikar í hans eigin flokki, þar var mesti veikleikinn.
Nefnir Benedikt orð Páls sem dæmi um veikleika innan Sjálfstæðisflokksins:
Upphlaup Páls Magnússonar núna. Þegar hann hleypur frá fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki verið búinn að samþykkja það. Þetta búið að fara í gengum þingflokka, búið að fara í gengum ríkisstjórn. Unnið á fjármálaáætlun og fjármálastefnu. Þannig að þetta er svo ódýrt að maður er bara hissa. Flokkur sem kennir sig við ábyrgð.
Benedikt hefur ekki áhyggjur af stöðu Viðreisnar fyrir komandi kosningar:
Málstaðurinn sem við förum fram fyrir, það er frjálslyndi í landinu, hin frjálslynda miðja, fólk sem vill ábyrga hagstjórn en hugsar jafnframt um að það verði að vera hér velferðarsamfélag, að hér verði fólk að vilja búa og hér verður að vera gott samfélag fyrir barnafólk, fyrir þá sem hafa lokið sínu ævistarfi. Mér fannst þetta ágætlega orðað þegar Þorsteinn Víglundsson talaði um að við værum með hægri hagstjórn og vinstri velferð. Við erum framsækinn flokkur og það eru ekki aðrir flokkar sem hafa sett þetta með sama hætti á oddinn.