Sigurður Jónsson skrifar:
Í Silfrinu hjá Agli Helgasyni síðasta sunnudag var m.a. Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Páll kom einstaklega vel út úr viðtalinu og sagði m.a. eftirfarandi um mál síðustu viku:
„Við hefðum getað haldið betur á þessu því að sannarlega er það ekki svoleiðis að að það sé meiri biðlund, meiri samúð hjá fólki í Sjálfstæðisflokknum með barnaníðingum eða minni samúð með fórnarlömbum þeirra en hjá öðru almennilegu fólki. En fyrir marga virkaði þetta þannig að við værum að svara þessu með lagastagli. Það er mín skoðun að þegar það verður ljóst í júlí að faðir forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins hafi skrifað undir þetta umsagnarbréf, þá er ég þeirrar skoðunar að það hefði átt að segja frá því strax og ef menn teldu einhverja lagalega skavanka á því þá, þá átti að reyna að fá Benedikt Sveinsson til að gera þetta bara að eigin frumkvæði. Þetta hefði verið betur séð.“
Það er mikill munur á málflutningi Páls Magnússonar heldur en Brynjars Níelssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins frá Reykjavík. Brynjar sparar ekki stóru orðin og kallar menn alls konar nöfnum. Almenningi finnst hann sýna hroka. Best færi á því að Brynjar tæki sér frí frá því að vera talsmaður Sjálfstæðisflokksins. Páll Magnússon er mun betur til þess fallin að vera talsmaður.