Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir að kosningabaráttan verði vafalaust óvægin á köflum en að Sjálfstæðisflokkurinn hafi aldrei óttast kjósendur og sé ævinlega tilbúinn til kosninga. Í bréfi sem Bjarni sendir flokksmönnum sínum í dag segir hann að hann geti ekki svarað fyrir ákvörðun föður síns um að veita Hjalta Sigurjóni Haukssyni umsögn þegar Hjalti sótti um uppreist æru, undirskriftin hafi verið hluti af úreltu og meingölluðu ferli sem Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hafi þegar hafið vinnu við að afnema:
Sú vinna hófst áður en málin komust í hámæli en brotaþolar og aðstandendur þeirra eiga heiður skilið fyrir að knýja fast á um breytingar,
segir Bjarni. Hann segir að atburðarrásin síðustu daga hafi verið hröð og hafi komið honum á óvart, en fyrst og fremst hafi hún valdið honum vonbrigðum:
Viðbrögð samstarfsflokka okkar við meintum trúnaðarbresti, sem var að vísu enginn í huga annars flokksformannsins og tók nokkra daga að verða til í huga hins, voru fráleit og ábyrgðarlaus gagnvart fólkinu í landinu. Samstarfinu var slitið án þess að minnsta viðleitni væri gerð til að eiga samtal um það mál sem deilt var um.
Smáflokkum mun fjölga með tilheyrandi glundroða
Bjarni segir að Sjálfstæðisflokkurinn muni ekki hlaupast undan ábyrgð og muni stýra starfsstjórn fram til kosninga 28. október næstkomandi:
Í dag eru einungis 36 dagar til kosninga. Við eigum mikið verk fyrir höndum á stuttum tíma. Það er mikilvægt fyrir Íslendinga að fá aftur traust og festu í stjórnmálin í landinu,
segir Bjarni. Skoðanakannanir bendi til að smáflokkum muni fjölga á þingi með „tilheyrandi glundroða“. Hann segir jafnframt að Sjálfstæðisflokkurinn muni varla sigla lygnan sjó fram að kosningum:
Framundan er snörp kosningabarátta. Hún verður vafalaust óvægin á köflum en Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei óttast kjósendur. Við erum ævinlega tilbúin til kosninga og hlökkum til að fara um landið, eiga samtal við landsmenn og kynna stefnumál okkar.