Reykjanes sendi þingmönnum þrjár spurningar og bað þá um svör. Þingmenn í Suðurkjördæmi eru 10. Athyglisvert að sumir svara ekki. Hér koma svör Jónu Sólveigar Einarsdóttur þingmanns Viðreisnar.
Fyrir liggur að ekkert auka fjármagn verður sett í lagfæringar á Reykjanesbraut eða Grindavíkurveg á þessu ári. Fleiri vegi á Suðurnesjum þarfnast mikilla endurbóta. Er hægt að sætta sig við að þessi fjölfarnasti ferðammastaður landsins þurfi áfram að bíða?
Það er gríðarlega mikilvægt að forgangsraða fjármagni í lagfæringar á þessum vegum. Þetta snýst ekki bara um nauðsyn þess að vegirnir séu greiðfærir heldur er þetta spurning um líf og dauða eins og hræðileg dæmi síðastliðinna mánaða og ára sýna okkur. Ég mun því berjast fyrir því við vinnslu fjárlaga í haust að fjármunum verði forgangsraðað á þau svæði þar sem álagið er mest, þ.e.a.s. á Suðurnesin og Suðurlandið.
Misserum saman hefur verið rætt um að innheimta gjald af þeim mikla fjölda erlendra ferðamanna sem kemur til landsins til að standa undir hluta kostnaðar við uppbyggingu vegakerfis og aðstöðu á fjölförnum ferðamannastöðum. Rætt hefur verið um ferðamannapassa, vegatolla, hækkun á gistináttaskatti, komugjöld o.fl. en ekkert gerist.
Hvaða leið vilt þú fara?
Fyrir kosningar talaði Viðreisn fyrir bílastæðagjöldum, annars vegar til að standa straum af kostnaði við uppbyggingu á ferðamannastöðum og hins vegar til aðgangsstýringar. Nýlega var frumvarp um bílastæðagjöld samþykkt út úr ríkisstjórn svo það er strax komin hreyfing á þá lausn sem að við í Viðreisn töluðum fyrir í aðdraganda kosninga.
Þá er gert ráð fyrir einföldun á virðisaukaskattskerfinu í nýrri fjármálaáætlun sem gerir ráð fyrir fækkun á undanþágum í virðisaukaskattskerfinu og að minnka bilið milli skattþrepanna. Þar er gert ráð fyrir að ferðaþjónustutengd starfsemi færist í almennt virðisaukaskattsþrep 1. júlí 2018. Það er eðlilegt þegar ferðaþjónustan er orðin okkar stærsta atvinnugrein að hún sitji við sama borð og aðrar greinar, ekki síst þegar fjölgun ferðamanna til landsins nemur tugum prósenta á hverju ár. Almennt þrep virðisaukaskatts lækkar svo í kjölfarið úr 24% í 22,5% 1. janúar 2019. Með þessu móti viljum við leggja okkar af mörkum til þess að bæta kjör launþega án þess að til þurfi að koma jafnmiklar launahækkanir og ella. Þetta er í anda stöðugleika og hófsamra launahækkana sem við höfum boðað.
Annars er ég líka tilbúin að skoða og ræða útfærslu lausna, eins og t.d. vegatolla, til að flýta fyrir nauðsynlegum vegaframkvæmdum og auka þannig umferðaröryggi. Mér finnst persónulega óábyrgt að slá slíkar hugmyndir út af borðinu áður en við höfum fengið tækifæri til að kynna okkur tillögur að og mismunandi útfærslur á slíkum lausnum. Það er auðvitað lykilatriði að slíkar lausnir séu þannig útfærðar að þeir sem nota vegina oftast borgi lágmarksgjald. Upplýst umræða, byggð á slíkum útfærðum hugmyndum sem hægt er að taka afstöðu til, er til þess fallin að færa umræðuna áfram á meðan upp- og úthrópanir draga okkur niður.
Eldri borgarar eru hvattir til þátttöku í atvinnulífinu t.d. með því að taka að sér hlutastarf. Á sama tíma eru frítekjumörk sett í 25. Þúsund krónur á mánuði. Eftir það verður 45% skerðing á greiðslum frá TR, þannig að viðkomandi heldur eftir skatta aðeins um 30% launanna.
Er þetta ásættanlegt?
Nei, sem er einmitt ástæðan fyrir því að í nýrri fjármálaáætlun er gert ráð fyrir umtalsverðri hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna eldri borgara þar sem miðað er við að fara úr 25 þús.kr. á mánuði í 100 þús.kr. á tímabilinu. Þá er einnig gert ráð fyrir að grunnellilífeyrir verði hækkaðar úr 280 þús.kr. í 300 þús.kr. frá og með ársbyrjun 2018 en hvorutveggja hækkun frítekjumarksins og grunnellilífeyrisins er eitthvað sem Viðreisn talaði fyrir í kosningabaráttunni.