Eðlilegt er að ríkið selji sveitarfélögum lóðir án auglýsingar ef lóðirnar eru innan marka skipulagsvalds sveitarfélagsins, viðskiptin eigi sér stað á viðskiptalegum forsendum og að fyrir liggi rökstuddar ástæður fyrir kaupunum. Þetta segir í svari Benedikts Jóhannessonar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttir þingmanns Framsóknarflokksins. Spurði hún um hvort sveitarfélög hafi sóst eftir kaupum á lóðum ríkisins á höfuðborgarsvæðinu, hvaða lóðir sé um að ræða og hver viðbrögð ríkisins voru.
Í svarinu segir að hin almenna stefna ríkisins við ráðstöfun á landi eða öðrum eignum ríkisins sé sú að auglýsa allar slíkar eignir og taka hagstæðasta kauptilboðinu. Undanfarinn áratug hafi ríkið átt í viðræðum við ýmis sveitarfélög um lóðir til uppbyggingar innan sveitarfélaganna, þar á meðal land 202 hektara land við Vífilsstaðaspítala sem Garðabær keypti í síðustu viku. Varðandi þá lóð segir í svari ráðherra:
Ráðuneytið hefur á undanförnum árum átt í viðræðum við Garðabæ um hugsanleg kaup Garðabæjar á landi ríkisins við Vífilsstaði. Ráðuneytið og sveitarfélagið hafa hingað til ekki náð saman um kaup sveitarfélagsins á umræddu landi. Síðasta haust fóru viðræður milli aðila af stað á nýjan leik og hafa þær gengið vel. Ákveðið var að óska eftir sameiginlegu verðmati á umræddu landi miðað við forsendur sem fyrir liggja í nýjum drögum að aðalskipulagi. Auk tiltekins grunnkaupverðs er gert ráð fyrir ábataskiptasamningi milli ríkis og sveitarfélags verði ákveðið að breyta eða þétta byggð á umræddu landi umfram núverandi hugmyndir. Vonast er til að hægt verði að undirrita samning við sveitarfélagið á næstu dögum eða vikum.