Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata komst í fréttirnar um daginn þegar kom í ljós að hann byggi á Stúdentagörðum ásamt eiginkonu sinni og börnum. Það þótti mörgum óeðlilegt að maður með hans tekjur hefði búsetu á Stúdentagörðum. Jón Þór er með rúma 1,3 milljónir króna í mánaðarlaun sem þingmaður og varaforseti Alþingis en eiginkona hans stundar nám við Háskóla Íslands. Hann tilkynnti síðan að hann hyggðist flytja ásamt fjölskyldunni af görðunum. Nú auglýsir Jón Þór eftir íbúð fyrir fjölskylduna á Facebook síðu sinni.
Margir blönduðu sér í umræðuna þegar upp komst um búsetu Jóns Þórs og fjölskyldu á Stúdentagörðum líkt og lesa má um hér.
Andri Snær Magnason, rithöfundur og fyrrum forsetaframbjóðandi sagði til að mynda líkt og lesa má hér að reiði fólks sem upplifði óréttlæti væri beitt „í rangan farveg með því að klæmast á persónu og fjölskylduhögum og skapa vantraust á fólki sem hefur ekki unnið til þess.“
Þingmaður Pírata, Sara Óskarsdóttir tók í sama streng og Andri og sagði:
Það sem Andri segir og grjóthaldi þeir svo kjafti sem finnst rétt að fólk missi einstaklingsréttindi sín sökum þess hver maki þeirra er eða gerir. Alveg grjót.
Á Facebook síðu sinni segir Jón Þór:
Fjölskylduna vantar íbúð til leigu í Reykjavík og nágrenni. Erum reyklaus og róleg með tvö börn, sjö og fjögurra ára.