Páll Valur Björnsson fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar sem sagði sig úr flokknum í gær er mjög andsnúinn stjórnarsamstarfi flokksins með Viðreisn og Sjálfstæðisflokknum og hugnast frekar hugmyndir Gunnar Smára Egilssonar og Mikaels Torfasonar um stofnun sósíalistaflokks á Íslandi.
Við erum þannig flokkur, sem byrjuðum þannig að við ætluðum að reyna að breyta íslenskum stjórnmálum; kerfisbreytingar, minna fúsk, róttækur mannréttindaflokkur, breytingum í íslensku samfélagi. Það verður ekki gert með Sjálfstæðisflokknum sem er gegnsýrður af sérhagsmunagæslu og gaf það hreinlega út að hann vildi engar kerfisbreytingar á Íslandi,
segir Páll Valur í samtali við Vísi. Segir hann að urgur hafi verið í honum þegar flokkurinn fór í ríkisstjórn með Viðreisn og Sjálfstæðisflokknum þar sem hann hafi talið að Björt framtíð ætti ekki samleið með Sjálfstæðisflokknum. Kornið sem fyllti mælinn hjá Páli Val var stefna flokksins í málefnum barna:
Þetta er allt á sömu bókina lært. Ég er miklu meiri sósíalisti í mer en svo að þetta sé hugmyndafræði sem ég aðhyllist. Í raun er skelfilegt til þess að hugsa að Björt framtíð hafi leitt Sjálfstæðisflokkinn til valda aftur. Það er flokkur sem hefði mátt fá frí. Ég var spenntur fyrir fimm flokka stjórninni, þó hún hafi kannski ekki verið óskakostur þá var þar sögulegt tækifæri og ég batt vonir við það að BF myndi sækja inn á miðjuna. Mér hugnast ágætlega þessar hugmyndir Gunnars Smára og Mikaels. Það verður að stoppa þennan óðakapítalisma sem er að leggja hér allt í rúst og það gerist ekki í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.