
Uppreisn, ungliðahreyfing Viðreisnar, hefur sent frá sér ályktun um aðskilnað ríkis og kirkju og kallar eftir því að Alþingi hefji strax vinnu við aðskilnaðinn.
Ályktunin er svohljóðandi:
Aðskiljum ríki og kirkju!
Stjórn Uppreisnar fagnar ræðu Jóns Steindórs Valdimarssonar, þingmanns
Viðreisnar, þar sem hann sagði löngu tímabært að Alþingi verði við
kröfunni um aðskilnað ríkis og kirkju. Stjórn Uppreisnar tekur einnig
undir með honum um að mikilvægt sé að aðskilnaður gangi í gegn með sátt
allra aðila og að umræðan verði tekin án þess að fólk skýli sér á bak við
það hversu flókinn aðskilnaður kunni að vera. Stjórn Uppreisnar hefur þá
bjargföstu trú að aðskilnaður verði öllum til heilla, bæði þjóðkirkjunni
og þjóðinni allri.
Í samkomulagi ríkisins og þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur
presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997 kemur fram að
kirkjujarðir og kirkjueignir sem þeim fylgja, að frátöldum prestsetrum,
verði eign ríkisins. Í samkomulaginu kemur jafnframt fram að aðilar líti á
það sem eignaafhendingu og skuldbindingu sem fullnaðaruppgjör þeirra vegna
þeirra verðmæta sem ríkissjóður tók við árið 1907 gegn því að ríkissjóður
greiði laun biskups, og tiltekins fjölda presta, prófasta og starfsmanna
biskupsembættisins. Launagreiðslur samkvæmt samkomulaginu voru
ótímabundnar en heimild veitt til endurskoðunar þeirra 15 árum frá
undirritun, sem var þá í janúar 2012. Sú endurskoðun hefur ekki enn átt
sér stað.
Með úrskurði kjararáðs, 17. desember sl., var tekin ákvörðun um hækkun
launa biskups um rúmar 250.000 kr. á mánuði, sem skuli gilda afturvirkt
frá 1. janúar 2017. Laun biskups og annarra starfsmanna sem undir
samkomulagið heyra hafa hækkað mikið á samningstímanum. Stjórn Uppreisnar
telur fjárútlát vegna samkomulagsins vera birtingarmynd slæmrar
forgangsröðunar í ríkisrekstri og að umræddum fjármunum væri betur varið í
uppbyggingu grunnþjónustu en laun starfsmanna þjóðkirkjunnar. Að mati
stjórnar Uppreisnar ætti Alþingi að hefja strax endurskoðun samkomulagsins
með það að markmiði að slíta sambandi ríkisins og kirkjunnar. Samfélag sem
trúir á trúfrelsi borgaranna á ekki að upphefja eitt trúfélag á kostnað
skattgreiðenda, óháð fjölda félagsmanna þess.
Í ljósi orðalags samkomulagsins telur stjórn Uppreisnar að kirkjujarðirnar
teljist eign íslensku þjóðarinnar í dag. Mat þarf að fara fram á verðmæti
kirkjujarðanna og vel getur verið að fullt verð hafi þegar verið greitt
fyrir þær á síðustu 20 árum. Ef svo er ekki eru sterk rök fyrir því að
eftirstöðvar verðmætis þeirra verði greiddar. Sú greiðsla myndi forða því
að ríkið yrði skuldbundið til að greiða síhækkandi fjárhæðir á hverju ári
um óákveðna tíð. Það þarf að skoða og þurfa allir aðilar að koma að
borðinu við matið, til að stuðla að því að sátt verði um aðskilnað.
Stjórn Uppreisnar telur að aðskilnaður ríkis og kirkju verði samfélaginu
til heilla. Hver og einn einstaklingur á að hafa rétt til að tilheyra því
trúfélagi sem hún, hann eða hán kýs, án þess að greiða fyrir trúþjónustu
annarra í formi skattgreiðslna. Engin sterk rök eru fyrir því að eitt
trúfélög standi öðrum framar og hljóti sérstaka vernd, líkt og kveðið er
um í Stjórnarskrá, og rímar það illa við þá hugsjón um jafnrétti og jafna
virðingu fyrir öllum, sem við viljum stuðla og hlúa að.