Umferðin í Hvalfjarðargöngum jókst um nær 13,5 prósent í október miðað við sama mánuð í fyrra, eða sem svarar til 820 ökutækja á sólarhring. Þetta er langmesta umferð í októbermánuði frá því göngin voru opnuð. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Spalar.
„Umferðaraukningin er mikil þegar horft er til fyrstu tíu mánaða ársins. Meðalumferð á sólarhring í fyrra var 6.683 ökutæki en 7.251 nú. Fjölgunin nemur 568 ökutækjum á sólarhring að jafnaði,“ segir í fréttinni og því bætt við að góð tíð og hagstætt ferðaveður hafi mikið að segja.
„Á hringveginum jókst umferðin í október um 15%, hvorki meira né minna. Mest jókst hún á Suðurlandi en minnst á Vesturlandi.
Vegagerðin gerir nú ráð fyrir að heildarumferð á hringveginum aukist um 11% á árinu öllu sem yrði þá næstmesta aukning umferðar á einu ári frá því byrjað var að taka saman tölur þar að lútandi,“ segir í fréttinni.
Í frétt Morgunblaðsins í dag kemur fram að umferðin um Hvalfjarðargöng nálgist hámarkið, sem er átta þúsund ökutæki á sólarhring. Vísað er í skýrslu stjórnar, sem kynnt var á aðalfundi félagsins í mars síðastliðnum, að miðað við eðlilega umferðarspá sé líklegt að umferðin fari í 8.000 ökutæki árið 2019.