Atli Gíslason, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna, segir að flokkurinn hafi gert nokkur grundvallarmistök í kosningabaráttunni. Atli var þingmaður á árunum 2007 til 2013.
Í viðtali í Morgunblaðinu í dag segir Atli að flokkurinn hefði að líkindum haldið áfram að tapa fylgi eins og raunin varð vikurnar fyrir kosningar. Í skoðanakönnunum í haust mældist flokkurinn langtum stærstur en síðan fór að halla undan fæti og endaði flokkurinn með 16,9 prósenta fylgi.
Í viðtalinu segir Atli að stefnumál VG hafi verið almenn og kjósendur ekki vitað hvar þeir hefðu flokkinn. Flokkurinn hafi verið stofnaður í kringum femínisma og umhverfisvernd og VG hefði þurft að halda sínum helstu baráttumálum betur á lofti.
Þá bendir Atli á að flokkurinn hafi farið í vörn þegar umræðan fór að snúast um skattamál. Að vera í vörn í kosningabaráttu sé það versta sem geti gerst fyrir stjórnmálaflokk; Sjálfstæðisflokkur hafi séð sér leik á borði og hamrað á því að flokkurinn ætlaði að skattleggja millistéttina, en áður hafi VG sagst vilja miða við mjög háar tekjur fyrir hátekjuskatt og mjög miklar eignir fyrir auðlegðarskatt.
Loks nefnir Atli að flokkurinn hafi gert mistök með því að stilla nær eingöngu upp Katrínu Jakobsdóttur. „Það á að stilla upp málefnum en ekki manneskjum. Það er mín persónulega og pólitíska skoðun í stjórnmálum,“ segir hann.