„Jæja. Þá er spurningin bara hvort að við fáum Simma eða Bjarna aftur sem forsætisráðherra. Til hamingju Ísland. Mér er óglatt,“ segir Sara Oskarsson, varaþingmaður Pírata, á Twitter-síðu sinni.
Fjölmargir hafa tjáð sig um þá niðurstöðu að slíta stjórnarmyndunarviðræðum VG, Framsóknar, Samfylkingar og Pírata. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, mun funda með Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands í dag þar sem hún mun að líkindum skila inn umboði sínu til stjórnarmyndunar.
Illugi Jökulsson rithöfundur segir á Facebook að Framsóknarflokkurinn hefði getað endurnýjast sem öflugur miðflokkur í ríkisstjórn með Katrínu Jakobsdóttur.
„En Sigurður Ingi Jóhannsson vildi það ekki. Hann kýs heldur Sjálfstæðisflokkinn sem hann þekkir. Því sýndi hann af sér ótrúlegan óheiðarleika og undirferli með því að fara út í þessar viðræður við VG, Samfylkingu og Pírata sem sannarlega ætluðu að láta þetta ganga. En Framsókn ætlaði ekki að láta þetta ganga, þetta var blekkingarleikur og annað ekki. Framsóknarflokknum er bersýnilega ekki treystandi yfir þröskuld, nema það sé þá í fang Panamaprinsanna.“
Þorkell Máni Pétursson, annar stjórnanda Harmageddon á X-inu, segir á Facebook að nú verði Samfylkingin og VG að fara með Sjálfstæðisflokki í ríkisstjórn.
„Auðvitið er það pínlegt og hálf ömurleg niðurstaða. En þetta er ekki spurning um eitthvað stolt. Þetta er spurning um hvað er best fyrir þjóðina. Hér hefði alltaf átt að koma á þjóðstjórn eftir hrun. Þá hefðu þessi átök í stjórnmálunum aldrei orðið þessi sýra sem þau eru í dag. Nú er tækifæri til að leiðrétta þá vitleysu. Ríkistjórn undir forystu Katrínar með Sjálfstæðisflokk innanborðs er alltaf betri kostur fyrir land og þjóð en hrein hægri stjórn. Ef samfó og VG eru ekki til í þessa stjórn finnst mér það ábyrgðarleysi. Ég held það væri enn betri hugmynd að bjóða Viðreisn líka að vera með.“