Ef hugmyndir Pírata þess efnis að ráðherrar flokksins í ríkisstjórn skuli ekki sitja á þingi eigi að verða að veruleika verður að breyta lögum. Þá mun kostnaður vegna hvers ráðherra hlaupa á fleiri milljónum króna en fyrir hvern þingmann þyrfti að kalla inn varaþingmann.
Fjallað er um þetta í Morgunblaðinu í dag. Þingfararkaup er rétt rúm 1,1 milljón króna en við þetta myndu bætast biðlaun, lífeyrisskuldbindingar og annar kostnaður.
Smári McCarty, þingmaður Pírata, segir í samtali við Morgunblaðið að réttlætingin fyrir þessu sé mikil og bendir hann á að ráðherrar yrðu með þessu gerðir óháðari. Þá myndi breytingin stuðla að sjálfstæðara þingi og um leið fjölga starfsmönnum þingsins.
„Í síðustu ríkisstjórn voru menn í miklu basli með að manna nefndir sem kom mikið niður á afkastagetu nefnda. Þingmenn höfðu ekki tíma til að vinna sitt nefndastarf vel, þannig að réttlætingin er mjög mikil,“ segir Smári við Morgunblaðið.
Hann segir að Píratar muni ekki gera þessa sömu kröfu á hugsanlega samstarfsflokka sína í ríkisstjórn en segist þó vona að þetta fyrirkomulag sé það sem koma skal. „Vonandi er þetta eitthvað sem aðrir flokkar munu taka sér til fyrirmyndar.“