Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun ræða við formenn og fulltrúa þeirra flokka sem eiga sæti á Alþingi og kanna hug þeirra til annarra möguleika á myndun ríkisstjórnar. Guðni fundaði með Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG, í dag en á fundinum tilkynnti Katrín að viðræðum um myndum ríkisstjórnar VG, Framsóknarflokks, Pírata og Samfylkingar hafi verið slitið.
Katrín skilaði því umboði sem hún hafði til myndunar ríkisstjórnar. Í tilkynningu sem Guðni sendi fjölmiðlum kemur fram að vænta megi að formenn flokkanna muni ræða sín á milli um vænleg skref varðandi myndun nýrrar ríkisstjórnar. „Að því loknu má vænta næstu skrefa í stjórnarmyndunarviðræðum.“
Óvíst er hvað tekur við en RÚV greindi frá því síðdegis að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og stærsta flokksins á þingi, ætlaði ekkert að tjá sig í dag um stöðu stjórnarmyndunarviðræðna. Þá hefur ekki náðst í Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, stærsta flokksins á þingi, ætlar ekki að tjá sig um stöðu stjórnarmyndunarviðræðna í dag. Ekki hefur náðst í Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins sem vann mest á í þingkosningunum um þarsíðustu helgi.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði við mbl.is að hún teldi rökrétt að Bjarni Benediktsson fengi umboðið. „Það kæmi mér ekki á óvart ef að Sjálfstæðisflokkurinn með Bjarna í forystu myndi fá stjórnarmyndunarumboðið. Það væri í rauninni ekkert ólógískt,“ sagði Þorgerður.