Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur nú til meðferðar tillögu að breytingu á aðalskipulagi hreppsins til þess að geta síðar afgreitt erindi frá Vegagerð ríkisins um veg um Teigsskóg samkvæmt svonefndri Þ-H leið. Þegar þeim breytingum verður lokið getur Vegagerðin loksins lagt inn formlegt erindi um framkvæmdaleyfi fyrir veginum. Fallist hreppsnefndin á erindið og veiti framkvæmdaleyfi geta framkvæmdir hafist. Þó verður að hafa þann fyrirvara að hægt er að kæra ákvörðun hreppsnefndarinnar til úrskurðarnefndar um umhverfismál. Kæran frestar ekki framkvæmdum sjálfkrafa en kærandi getur óskað eftir því að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða meðan kæran er til meðferðar. Það kemur í hlut úrskurðarnefndarinnar að afgreiða slíkt erindi og getur nefndin fallist á það. Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps staðfestir að svona geti málin gengið fyrir sig. Úrskurðarnefndin er endanlegur aðili á stjórnsýslustigi en bera má ákvarðanir hennar undir dómstóla.
Það eru sérstök lög frá 2011 sem gilda um úrskurðarnefndina. Samkvæmt þeim geta þeir kært sem eiga lögvarða hagsmuni að gæta. Þó geta umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga geta þó kært veitingu framkvæmdaleyfis án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Í lögunum eru engar leiðbeiningar um það hvenær eða við hvaða aðstæður úrskurðarnefndin skuli eða geti fallist á kröfu um stöðvum framkvæmda til bráðabirgða. Hins vegar er það útskýrt í greinargerð með frumvarpinu þegar það var til meðferðar á Alþingi og er vísað til ákvæða stjórnsýslulaga og þess að í málum sem varða framkvæmdir sem hafa áhrif á umhverfið kann kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hefur ekki heimild til að fresta réttaráhrifum hennar.
Ingibjörg segist vonast til þess að unnt verði að ljúka breytingunni á aðalskipulaginu í apríl á næsta ári og að þá geti Vegagerðin sótt um framkvæmdaleyfi.
Í þessu ljósi má ætla að ákvörðun hreppsnefndar Reykhólahrepps um framkvæmdaleyfi fyrir veginum um Teigsskóg verði umsvifalaust kærð og líklegt að úrskurðarnefndin stöðvi framkvæmdir til bráðabirgða meðan kæruferlið stendur yfir. Gangi það eftir munu framkvæmdir stöðvast á næsta sumri. Hversu lengi það mun svo taka er ekki gott að segja. Meðalafgreiðslutíminn var á árinu 2016 rúmir 9 mánuðir. Í árslok 2016 biðu 5 mál frá 2014 afgreiðslu í nefndinni m.a. vegna þess að hluta þeirra hafði verið vísað til dómstóla. Svo það er raunverulegur möguleiki að málareksturinn fyrir úrskurðarnefnd geti tekið 2 – 3 ár með viðkomu hjá dómstólum. Engin leið er svo að spá fyrir um það hver niðurstaðan verður, loksins þegar hún er fengin.