Þórhildur Sunna Ævarsdóttir er nýr formaður þingflokks Pírata. Kosið var í stjórn þingflokks á þingflokksfundi í vikunni. Helgi Hrafn Gunnarsson var kjörinn varaþingflokksformaður og Jón Þór Ólafsson er ritari þingflokks.
Þórhildur Sunna hefur verið þingmaður Pírata síðan haustið 2016, var oddviti Pírata í Reykjavík suður í nýafstöðnum kosningum og hefur gegnt stöðu aðal samningamanns Pírata í stjórnarmyndunarviðræðunum. Þar að auki hefur hún verið alþjóðaritari framkvæmdaráðs Pírata og setið í úrskurðarnefnd flokksins. Þórhildur Sunna er lögfræðingur að mennt en hún sérhæfði sig í alþjóðlegum mannréttindum og refsirétti í Háskólanum í Utrecht Hollandi.Þórhildur Sunna segir að frá því að upp úr slitnaði í stjórnarmyndunarviðræðum Pírata, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins hafi flokkurinn einbeitt sér að því að leggja línurnar fyrir komandi kjörtímabil í stjórnarandstöðu:
Píratar hafa – allt frá því að stjórnarmyndunarviðræðum milli Pírata, Samfylkingar, Framsóknar og Vinstri grænna lauk – einbeitt sér að því að skipuleggja starfið framundan í vetur og áherslur Pírata fyrir komandi kjörtímabil. Þar ber helst að nefna baráttu fyrir auknu upplýsinga- og tjáningarfrelsi, auknu gagnsæi á þingi sem og í stjórnsýslunni og bættri mannréttindavernd í margvíslegum skilningi.