Nærri helmingur kvenna á Íslandi hefur orðið fyrir kynferðislegu áreiti á vinnustað á einhverjum tímapunkti. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar Gallup. Hlutfallið er mun hærra hjá konum en körlum, en 45% kvenna sögðust hafa orðið fyrir kynferðislegu áreiti í starfi en 15% karla.
Hlutfallið er hæst hjá konum á aldrinum 18 til 24 ára en 55% þeirra hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað. Hefur 23% karla í sama aldursflokki orðið fyrir kynferðislegri áreitni.
Alls hafa 5% orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi á síðustu 12 mánuðum, 8% kvenna og 3% karla.
Niðurstöðurnar eru sambærilegar við það sem gerist í Bretlandi og Bandaríkjunum. Samkvæmt könnun Gallup í Bandaríkjunum í október síðastliðnum þá hafa 42% kvenna og 11% karla orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað. Í Bretlandi höfðu 53% kvenna og 20% karla orðið fyrir kynferðislegri áreitni.