fbpx
Sunnudagur 17.ágúst 2025
Eyjan

Jón Steinar: Dómarar gæta hagsmuna sinna

Ari Brynjólfsson
Fimmtudaginn 23. nóvember 2017 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari. Mynd/Sigtryggur Ari

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar:

Hinn 14. nóvember s.l. var í Hæstarétti kveðinn upp dómur sem gefur tilefni til hugleiðinga af alvarlegum toga. Í þessum dómi (mál nr. 705/2017) staðfesti rétturinn úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2017 þar sem synjað var kröfu verjenda þriggja ákærðra manna um að meðdómsmaðurinn Ingimundur Einarsson viki sæti vegna vanhæfis í sakamáli gegn þeim.

Í þessu dómsmáli eru ákærðu, fyrrverandi starfsmenn og viðskiptamaður Glitnis banka hf., sóttir til saka fyrir umboðssvik og hlutdeild í slíkum brotum.

Krafan um að meðdómsmaðurinn viki sæti byggðist á því að hann hefði átt fjárhagsmuni sem tengdust sakarefni málsins með þeim hætti að ylli vanhæfi hans. Hafði hann raunar ekki farið að reglum um tilkynningarskyldu um þessi fjármálaumsvif fyrr en nær 10 árum eftir að þau áttu sér stað. Héraðsdómur hafði hafnað kröfunni á þeirri forsendu að hagsmunir meðdómarans hafi, í ljósi þeirra fjárhæða sem um ræddi í málinu og þegar hliðsjón væri höfð af launum héraðsdómara (!), verið svo lítilvægir að ekki ylli vanhæfi hans.

Ef spólað er lítillega til baka muna menn væntanlega eftir upplýsingum, sem fram komu á opinberum vettvangi fyrir um það bil einu ári, um að margir dómarar við Hæstarétt hefðu á árunum „fyrir hrun“ átt verulega fjármuni í hlutafé og sjóðum bankanna og tapað umtalsverðum fjárhæðum þegar bankarnir féllu. Enginn vissi um þetta, þegar dómararnir við þessar aðstæður kváðu upp refsidóma yfir bankamönnum sem sóttir voru til saka vegna falls bankanna. Eftir að upplýsingarnar komu fram óskuðu eðlilega ýmsir þessara dómfelldu manna eftir að mál þeirra yrðu endurupptekin og dæmd af dómurum sem teldust til þess hæfir. Munu slík mál nú vera til meðferðar hjá endurupptökunefnd.

Ef Hæstiréttur hefði fallist á að Ingimundi Einarssyni bæri að víkja sæti í málinu, sem nú var dæmt, hefði dómurinn falið í sér áhrifamikinn stuðning við kröfur um endurupptöku dæmdu málanna. Þar voru hagsmunir reyndar miklu meiri í krónum talið en hjá Ingimundi. Það hefur því sjálfsagt ekki komið mikið á óvart að Hæstiréttur skyldi staðfesta úrskurðinn þó að ef til vill hafi það verið sérkennilegra að rétturinn lét ekki svo lítið að rökstyðja niðurstöðuna, eins og honum er þó skylt að gera. Það var ekki einu sinni vísað til forsendna héraðsdóms. Einungis var sagt: „Þá geta þau hlutabréfaviðskipti, sem meðdómsmaðurinn átti við síðastnefnda bankann og greinir í úrskurði héraðsdóms, heldur ekki valdið vanhæfi hans.“

Samkvæmt íslenskum rétti ber dómstólum að byggja niðurstöður sínar á réttarheimildum, settum lögum og síðan öðrum heimildum þegar þeim sleppir. Hér er ekki einu sinni reynt að gera þetta. Og ástæðan blasir við. Það er ekki hægt. Rétturinn er einfaldlega að beita valdi til að vernda þá hagsmuni dómaranna sjálfra að verða ekki taldir hafa verið vanhæfir þegar þeir eða kollegar þeirra dæmdu menn til fangelsisrefsinga í þeirri von að enginn myndi nokkurn tíma frétta af vanhæfi þeirra. Dómstóllinn er kominn í átök við þjóðina eða að minnsta kosti hluta hennar og beitir bara valdi sínu í þágu þeirra átaka sama hvað lagareglur segja.

Er það svona sem við viljum að íslenskir dómstólar vinni?

Í bók minni „Með lognið í fangið“ er gerð grein fyrir alvarlegum misfellum í starfsemi Hæstaréttar Íslands. Það er að mínum dómi þýðingarmesta viðfangsefni þjóðmálanna nú að koma þessu ástandi í lag. Gerð er í bókinni grein fyrir hugmyndum um hvernig því erindi verði fram komið. Ég höfða til allra manna að kynna sér þetta og láta til sín taka kröfuna um endurbætur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Málþæfður minnihluti þarf að átta sig

Málþæfður minnihluti þarf að átta sig
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jón hlakkar til að fá tækifæri til að hitta Long – „Hann þykir samt almennt hress“

Jón hlakkar til að fá tækifæri til að hitta Long – „Hann þykir samt almennt hress“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Inga nýtur sín á Tenerife en er samt í vinnunni – „Ég er ekki ein löggjafinn“

Inga nýtur sín á Tenerife en er samt í vinnunni – „Ég er ekki ein löggjafinn“
Eyjan
Fyrir 2 vikum

ESB-aðild: Eldstormur geisar – viljum við standa úti eða fara í skjól?

ESB-aðild: Eldstormur geisar – viljum við standa úti eða fara í skjól?
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Guðrún krefst þess að Kristrún segi eitthvað – „Við þurfum að tala skýrt“

Guðrún krefst þess að Kristrún segi eitthvað – „Við þurfum að tala skýrt“