Gunnar Smári Egilsson sósíalistaforingi og fyrrverandi ritstjóri segir að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í dag sé viss áfangasigur fyrir almenning gegn klíkuveldinu en að dómurinn komi of seint þar sem klíkuveldið hafi verið endurreist. Líkt og greint var frá í morgun úrskurðaði MDE í morgun íslenska ríkinu í vil í máli Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sem vildi frá dómi Landsdóms hnekkt en Geir, sem er nú sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, var sakfelldur fyrir að hafa vanrækt skyldu sína að halda ráðherrafundi um mikilvæg málefni.
Sjá einnig: Geir tapaði
Gunnar Smári segir á Fésbók að símtal Geirs Haarde þáverandi forsætisráðherra og Davíðs Oddssonar þáverandi seðlabankastjóra sem tekið var upp þann 6.október 2008 og birt nýlega heild sinni í Morgunblaðinu, sýni nauðsyn þess að halda formlega fundi um mikilvæg mál:
Það gengur ekki að ráðamenn séu að taka mikilvægar ákvarðanir í spjalli við klíkubræður sína, þar sem þeir eru fyrst og fremst að hlusta eftir tilfinningalegu samþykki og vissu um að verða bakkaðir upp af klíkunni ef illa fer. Dómur Landsdóms yfir Geir fyrir að hafa ekki haldið ríkisstjórnarfund um fyrirsjáanlega bankakrísu með tilheyrandi efnahagslegum hörmungum er því ekkert smá mál, aukaatriði. Það rekur fingurinn í meinsemd Íslands undir Eimreiðarklíkunni og fyrri klíkum sem hafa stjórnað landinu þvert á það ákvarðanaferli sem að nafninu til á að gildi í opnu lýðræðislegu nútímasamfélagi,
segir Gunnar Smári. Hann segir dóminn í dag vissan áfangasigur fyrir almenning gegn klíkuveldinu:
Dómur Mannréttindadómstólsins í dag er því viss áfangasigur fyrir almenning gegn klíkuveldinu. Almenningur þarf vernd af formlegum leiðum valds og ákvarðanatöku, að málin séu rædd út frá efnisatriðum og ákvarðanir teknar á vettvangi þar sem allir hlutaðeigandi hafi aðgengi (þeir Geir og Davíð héldu viðskiptaráðherra í myrkri vegna þess að þeir töldu þann sem gegndi starfinu ekki samboðinn sér, svo dæmi sé tekið).
Segir hann dóminn hins vegar koma of seint þar sem klíkuveldið hafi verið endurreist. Með því að gera Geir að sendiherra í Washington hafi klíkan sýnt hvar hin raunverulegu völd liggja, ekki hjá Landsdómi heldur í Valhöll. Sama klíka hafi grafið undan niðurstöðum Rannsóknarnefndar Alþingis og staðið af sér atlögu #höfumhátt í sumar með því að fela aðkomu sína að uppreist æru barnaníðings gegn kröfu þolenda um upplýsingar.
Klíkuveldið hefur grafið undan Landsdómi með linnulausum árásum á þá þingmenn sem stóðu vörð um hagsmuni almennings gegn valdinu og vildu ákæra þá stjórnmálamenn sem báru mesta ábyrgð á andvaraleysinu í aðdraganda Hrunsins, með þeim árangri að margt stjórnmálafólk hefur talið það aðgöngumiða að stjórnmálaþátttöku að mæta einhvers staðar hálfskælandi af eftirsjá yfir að hafa ákært Geir H. Harrde og hina ráðherranna, fólkið sem steig á bensíngjöfina svo við keyrðum á vegginn á fullum hraða.