Ísland mun ekki taka neinum grundvallarbreytingum þó vinstri stjórn taki við völdum. Þetta segir Lars Christensen, danskur alþjóðahagfræðingur og stofnandi ráðgjafafyrirtækisins Markets & Money Advisory.
Lars, sem er fyrrverandi aðalhagfræðingur Danske Bank, segir þetta í viðtali við fréttavef Bloomberg. Í umfjöllun Bloomberg er Lars kynntur til leiks sem maðurinn sem var í hópi þeirra fyrstu sem vöruðu við yfirvofandi efnahagshruni hér árið 2008.
Í viðtalinu segir hann að gera megi ráð fyrir því að stefnumótun í efnahagsmálum nýrrar stjórnar verði í grunninn sú sama og hjá fráfarandi ríkisstjórn. Í umfjölluninni er bent á að Ísland hafi frá árinu 2008 unnið sig út úr efnahagserfiðleikum; þannig hafi lánshæfiseinkunn Íslands hjá Moody‘s verið Baa3 árið 2009, en í dag sé hún A3 og horfur stöðugar. S&P Global Rankings gefi Íslandi einkunnina A og Fitch gefi einkunnina A-.
Í umfjöllun Bloomberg bendir Lars á að annars staðar á Norðurlöndunum hafi ríkisstjórnir frá miðju og til vinstri, líkt og nú er á teikniborðinu hér á landi, rekið efnahagsstefnu sem er tiltölulega hlynnt frjálsum markaði. Fjárfestar þurfi því ekki að óttast. Hann bendir á að áskoranir nýrrar stjórnar verði að halda launahækkunum í skefjum og viðhalda hagvexti.