„Í umræðum um komandi Alþingiskosningar í ríkissjónvarpinu í gær spurði Þorvaldur frá Alþýðufylkingunni Katrínu Jakobsdóttur formann Vinstri grænna um af hverju kjósendur ættu að treysta þeim í ljósi þátttöku þeirra í ríkisstjórninni á árunum 2009 til 2013. Þorvaldur nefndi nokkur atriði máli sínu til stuðnings. En inni í þessa spurningu vantaði fjölmörg atriði þar sem sú ríkisstjórn sem var við völd frá 2009 til 2013 vann algerlega gegn hagsmunum alþýðunnar og hagsmunum íslenskra heimila.“
Þannig hefst pistill eftir verkalýðsforingjann Vilhjálm Birgisson á Akranesi. Hann segir að það vanti þó nokkur atriði inn í upptalningu Þorvaldar. Vilhjálmur segir eftirfarandi atriði vanta:
„Afnámu verðtryggingu persónuafsláttar árið 2009 og sviku 3000 króna hækkun á persónuafslættinum sem átti að koma til framkvæmda 2010 sem verkalýðshreyfingin samdi um samhliða kjarasamningum í febrúar 2008. En þessi ákvörðun félagshyggjustjórnarinnar 2009 bitnaði langþyngst á þeim tekjulægstu.“
„Afnámu sjómannaafsláttinn sem sjómenn höfðu haft frá árinu 1954.“
„Afhentu lánasöfn heimilanna frá gömlu bönkunum yfir til þeirra nýju með afslætti sem nam frá 30% upp í allt að 50%. Skotleyfi var síðan gefið á íslensk heimili.“
„Eftir að gengistryggðu lánin voru dæmd ólögleg var farið á fulla ferð að koma í veg fyrir að þeir vextir sem voru á gengistryggðu lánunum fengju að standa óbreyttir.“
„Ríkisstjórnin setti svokölluð Árnapálslög á sem kváðu á um að seðlabankavextir skyldu taka við af þeim lágu vöxtum sem voru á gengistryggðu lánunum en seðlabankavextirnir voru rúm 8% á þessum árum en vextirnir á gengistryggðu lánunum voru þetta í kringum 2 til 3%.“
„Árnapálslögin voru látin gilda afturvirkt sem reyndist síðan kolólöglegt en þarna átti að reyna að hafa 64 milljarða af einstaklingum og heimilum með lögum sem ekki stóðust nokkra skoðun.“
„Á herðar skattgreiðenda voru lagðir 427 milljarðar til að endurreisa fjármálakerfið samkvæmt skýrslu frá ríkisendurskoðun.“
„Á sama tíma og 427 milljarðar voru lagðir á herðar skattgreiðenda misstu uppundir 10 þúsund fjölskyldur heimili sín vegna hrunsins.“
„Rétt er að geta þess að þessar aðgerðir stjórnvalda að slá ætíð skjaldborg um fjármálakerfið hafa gert það að verkum að viðskiptabankarnir þrír hafa skilað í hagnað uppundir 700 milljörðum m.a. vegna uppfærslu á lánasöfnum sem þeir fengu á hrakvirði frá gömlu bönkunum!“
Vilhjálmur kveðst gera sér grein fyrir að sú ríkisstjórn sem tók við á þessum tíma, árið 2009 hafi tekið við, við erfiðar aðstæður.
„ … en það réttlætir það alls ekki að aðalstefna ríkisstjórnarinnar sem tók við 2009 virðist hafa verið að tryggja fjármálalegan stöðugleika hjá fjármálaelítunni en skeytti litlu sem engu um fjármálalegan stöðugleika íslenskra heimila eins og sagan svo sannarlega sannaði.“
Þá segir Vilhjálmur að lokum í pistli sínum á Pressunni:
Það var sorglegt og í raun ótrúlegt að það skyldi vera ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð sem skyldi slá skjaldborg um fjármálaelítuna á kostnað alþýðunnar og íslenskra heimila eins og sagan hefur sannað fyrir okkur. Ég veit ekki með ykkur en þessu er ég ekki búinn að gleyma!