Rithöfundurinn Guðmundur Andri Thorsson leiðir lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjödæmi og er óumdeilanlega ein af vonarstjörnum flokksins fyrir kosningarnar.
Hann hefur boðað til félagsfundar í Samfylkingarhúsinu á Strandgötu í Hafnarfirði klukkan 20 í kvöld. Þar ætlar hann að kynna sig fyrir væntanlegum kjósendum í „léttu spjalli“ .
Svo óheppilega vill hins vegar til að klukkan 18:15 verður flautað til leiks Íslands og Kósóvó í undankeppni HM karla í knattspyrnu. Allt er undir hjá íslenska landsliðinu sem getur tryggt sér þáttökurétt á HM í Rússlandi með sigri. Mikill hugur er í liðinu og landanum eftir frækinn sigur á Tyrkjum þannig að í dag kemst líklega fátt annað en boltinn að í huga þjóðarinnar. Stjórnmál og kosningar munu þurfa að víkja í kvöld.
Hvernig sem leikurinn fer er hætt við að fundur Guðmundar Andra verði fáskipaður þar sem líklegt er að Íslendingar vilji fagna hressilega vinnist leikurinn og að sama skapi verða sjálfsagt fáir í góðum gír fyrir létt spjall fari allt á versta veg.