„Ég skil svolítið kjósendur í Breiðholtinu, úti á landi eða eitthvað svona, sem að hlaupa í fangið á Ingu Sæland. Blind kelling úr Breiðholtinu, sextug, voða hress. Talar um lífeyrisþega.. hvaða lífeyrisþegar eru á listum innan flokkanna?“
Þetta sagði Þóra Kristín Ásgeirsdóttir fyrrverandi fréttastjóri á Fréttatímanum í þættinum Ritstjórarnir á sjónvarpsstöðinni Hringbraut sem var sýndur fyrr í vikunni. Lét hún ummælin falla í umræðu um stjórnmálin í landinu en uppgangur Flokks fólksins hefur ekki farið framhjá neinum að undanförnu, hefur flokkurinn nýverið mælst með fylgi á bilinu 5 til 9%.
Þóra Kristín er reynd fjölmiðlakona og rak um skeið veftímarit Vinstri grænna, Smuguna, og starfaði einnig á Stöð 2. Hún bætti svo við:
Ég meina, hún er að tala máli þessa fólks, þessa óánægða fólks sem á sér ekki stað á hinum listunum. Þetta er stór hópur. Þarna er bara sextug alþýðukona, hún er blind, rúnum rist, rosalega mælsk, það bara sogast að henni fylgið frá Sjálfstæðisflokki og þetta þarna fylgi hægra megin sem hefur verið svolítið munaðarlaust. En ég skil það út af fyrir sig að fólk vilji treysta sínum líkum.
Inga Sæland formaður Flokks fólksins segir í samtali við Eyjuna að hún kippi sér ekki mikið upp við þessi ummæli en þau komi á óvart. Hún sé hvorki blind, sextug né búi í Breiðholti, það ætti Þóra Kristín að vita þar sem hún tekið viðtal við sig í fyrra:
Þetta er bara dóni, kurteisi kostar ekki neitt. Svo er þetta ekki alveg satt. Ég er sjónskert miðaldra kona í Grafarholti fyrst hún vill endilega draga það fram. Ég er ekki sextug, ég er nýorðin 58 ára gömul. En það er alveg satt hjá henni að ég er að berjast fyrir réttindum almennings, öryrkja, eldri borgara og lífeyrisréttindum okkar, algjörlega og af fullum þunga.