Þingmenn og stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins grípa til varna fyrir Bjarna Benediktsson formann flokksins í kjölfar fréttaflutnings í morgun af viðskiptum hans fyrir og í miðju bankahruninu haustið 2008. Birti breska dagblaðið Guardian, Reykjavík Media og Stundin ítarlegar fréttir um sölu Bjarna á bréfum í Sjóði 9 sem og fjölskyldu hans á bréfum í Glitni. Segir í umfjölluninni að Bjarni, sem þá var þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafi setið fundi þar sem alvarleg staða bankana var rædd og hafi selt bréf fyrir alls 120 milljónir króna eftir fund með bankastjóra Glitnis.
Líkt og greint hefur verið frá segir Bjarni að þessi viðskipti hafi verið eðlileg, hann hafi ekki búið yfir neinum innherjaupplýsingum og viðskipti hans hafi þegar verið rannsökuð í þaula án þess að hann hafi verið sakaður um neitt misjafnt. Fer hann yfir atriði málsins í ítarlegri færslu á Fésbók sem þingmenn og stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa deilt.
Sjá einnig: Bjarni svarar: „Öll mín viðskipti við Glitni banka voru eðlileg“
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins hvetur fólk til að lesa færslu Bjarna til að „hafa staðreyndir á hreinu“:
„Fréttin sem Stundin slær upp í morgun eru bæði gömul og villandi. Viðskipti Bjarna hafa staðist ítrekaða skoðun, bæði Rannsóknarnefndar Alþingis og slitstjórnar bankans. Á þessum tíma var öllum ljóst að Glitnir væri í alvarlegum vandræðum enda hafði verið fjallað um það í fjölmiðlum,“
segir Áslaug Arna og bætir við:
Bjarni sagði sig frá öllum stjórnarstörfum og losaði sig við hlutabréf til að helga alla starfskrafta sína íslenskum stjórnmálum. Fyrir það er ég þakklát, hann hefur einbeitt sér að því að byggja upp íslenskt samfélag og bæta lífskjör allra landsmanna. Bjarni er ekki aðeins einstakur stjórnmálamaður sem lætur ekki bilbug á sér finna þó hart sé að honum sótt, heldur er hann hvetjandi, umburðarlyndur og frábær vinur og samstarfsmaður.
Tilraun til að þyrla upp ryki í aðdraganda kosninga
Jón Gunnarsson samgönguráðherra segir að fréttaflutningur Guardian, Stundarinnar og Reykjavík Media í dag sé enn ein tilraunin til að „þyrla upp ryki til að hnekkja á Sjálfstæðisflokknum í aðdraganda kosninga“:
Engum vafa er undirorpið að styrk stjórn Bjarna Benediktssonar á ríkisfjármálum, á undanförnum árum, á stóran þátt í því hve vel hefur tekist til við uppbyggingu og endurreisn íslensks efnahagslífs. Þekking hans og reynsla hefur vegið þungt í allri ákvarðantöku sem leitt hefur af sér aukna velsæld okkar Íslendinga. Ég spyr er ekki mál að linni, er ekki kominn tími til að horfa til framtíðar, tryggja áframhaldandi stöðugleika og styrkja þar með grundvöllinn undir áframhaldandi hagsæld íslenskra heimila.
Sirrý Hallgrímsdóttir fyrrverandi formaður Landssambands Sjálfstæðiskvenna veltir fyrir sér tímasetningunni á fréttunum:
Nú 9 árum síðar er þetta mál aftur til umfjöllunar. Mál sem búið er að rannsaka í kjölinn. Ég velti fyrir mér tímasetningunni…..
Undir það taka Áslaug Arna, Hildur Sverrisdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Svanhildur Hólm Valsdóttir aðstoðarmaður Bjarna.
Ekki pólitískur jarðskjálfti
Hulda Þórisdóttir sálfræðingur og stjórnmálaskýrandi sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að það væri ekki líklegt að málið hefði áhrif á kosningabaráttuna, fólk sé þegar búið að gera upp við sig hvort það sem gerðist fyrir hrun sé ófyrirgefanlegt eða ekki:
Þetta er bara enn eitt málið af þessum toga sem kemur upp, eflaust í huga margra. Og þessi mál hafa pólaríserað þjóðina og ég hugsa að þeir sem að styðja Bjarna og hans flokk, þeir láta þetta ekki mikið á sig fá. Auðvitað kemur þetta róti á einhverja en ég held að þetta sé ekki jarðskjálfti í ljósi þess að þetta kemur í kjölfarið á svo mörgum svona málum.