fbpx
Föstudagur 18.júlí 2025
Eyjan

„Skáld eru órökvissir sveimhugar og eiga ekkert erindi á þing“

Ari Brynjólfsson
Fimmtudaginn 5. október 2017 17:29

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einar Kárason, Margrét Tryggvadóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Kristján B. Jónasson, Eiríkur Örn Norðdahl og Bubbi Morthens. Samsett mynd/DV

Rithöfundar eru óvenju frekir til fjörsins á framboðslistum fyrir komandi alþingiskosningar og þá helst hjá Samfylkingunni. Guðmundur Andri Thorsson leiðir listann í Suðvesturkjördæmi og í öðru sæti er Margrét Tryggvadóttir. Bæði rithöfundar. Þá skipar Einar Kárason 3.sæti hjá Samfylkingunni í Reykjavík suður og Hallgrímur Helgason það áttunda í Reykjavík norður.

Rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl hefur uppi ákveðnar efasemdir um þessa fjölgun skálda á framboðslistum og segir á Facebook:

Kannski fullsein ábending, en þetta að fjölga skáldum/lopatreflum á listum vinstrimanna er einsog að fjölga Engeyingum/jakkalökkum á listum hægri manna. Svínvirkar á kjarnafylgið – ekki endilega á efasemdarmennina.

Hressilegar umræður hafa spunnist í kjölfarið og þar fer mest fyrir bókafólki. Ljóðskáldið og húmoristinn Valdimar Tómasson segir einfaldlega:

„Skáld eru órökvissir sveimhugar og eiga ekkert erindi á þing.“

Bókaútgefandinn og bókmenntafræðingurinn Kristján B. Jónasson sér hins vegar jákvæða hlið á málinu: „Eldhúsdagsumræður gætu hugsanlega orðið bærilegar. Það eitt og sér er óumræðilegur kostur.“

Hann heldur síðan áfram og bendir á að orðsnilli hljóti að teljast styrkur á Alþingi:

Þegar haft er í huga að tungumálið er aðaltæki stjórnmálamannsins er það í raun rannsóknarefni hve fólk sem kann að fara með móðurmál sitt hefur lítið beitt sér í pólitík. Íslensk stjórnmál eru fyrst og fremst orðaskak, og því myndi maður ætla að þeir sem kunna að beita orðum væru í óskastöðu.

Gunnar Smári Egilsson heldur sig við samanburðarfræðin og sér hliðstæðu með rithöfundum og bændum:

Rithöfundar eru fyrir hina svokölluðu vinstri flokka það sem sauðfjárbændur eru fyrir Framsókn. Báðar stéttir lifa við sult en eru tryggar sínum flokkum gegn því að fá að vera með, vera getið á eldhúsdögum og eiga kannski von á smá, einhverju, seinna.

Bubbi Morthens er mjög gagnorður og segir einfaldlega: „Kjaftæði,“ þótt ekki sé fulljóst á samhenginu hvort hann á við upphaflega yfirlýsingu Einars Arnar eða umræðuna sem fylgir á eftir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sakar stjórnarandstöðuna um vanþekkingu og rekur sögu 71. gr.

Sakar stjórnarandstöðuna um vanþekkingu og rekur sögu 71. gr.
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Fullorðið fólk þarf að kunna að taka tapi í kosningum og una öðrum að fara með völdin“

„Fullorðið fólk þarf að kunna að taka tapi í kosningum og una öðrum að fara með völdin“