Læknarnir Oddur Steinarsson og Hjálmar Þorsteinsson gagnrýna fréttastofu RÚV og segja að nýleg frétt um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu í Svíþjóð sé byggð á misskilningi. Oddur, sem er sérfræðingur í heimilislækningum, og Hjálmar, sem er sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, segja í grein í Morgunblaðinu í dag að frétt RÚV sé í engu samhengi við fyrirsögnina. Fyrirsögnin Einkavædd heilbrigðisþjónusta dýrari sé einfaldlega röng þar sem sænska fréttin, sem RÚV byggir sína frétt á, fjalli um kostnað sænskra sveitarfélaga vegna heilbrigðisstarfsfólks sem ráðið er í gegnum mönnunarfyrirtæki inn á opinber sjúkrahús eða heilsugæslur. Segja þeir Oddur og Hjálmar að ef það sé einkavædd heilbrigðisþjónusta þá mætti segja að það sama eigi við Heilbrigðisstofnun Vesturlands þar sem hún sé að stórum hluta mönnuð af leigulæknum:
Sama á við um heilsugæslur víðar á landinu. Þetta er tímabundin ráðstöfun þegar starfsumhverfi heilbrigðisþjónustunnar er ekki nógu aðlaðandi og nýmönnun starfsfólks ófullnægjandi.
Segja þeir Oddur og Hjálmar að það sé ranglega fullyrt að læknisverk á einkasjúkrahúsum séu dýrari en verk sem unnin eru á spítölum í almenningseign:
„Um er að ræða lækna á opinberum heilsugæslum og sjúkrahúsum, þar sem læknar eru leigðir inn í neyð á hærra kaupi og starfa oft við hlið þeirra sem fastráðnir eru. Samanburður af þessu tagi er einnig villandi þar sem starfsfólk sem kemur í gegnum mönnunarfyrirtæki hefur ekki réttindi til símenntunar né veikindarétt á kostnað vinnuveitandans eins og fastráðinn starfsmaður,“
segja þeir og bæta við:
Undirritaðir hafa um árabil starfað í Svíþjóð sem læknar og stjórnendur, annars vegar innan heilsugæslu og hins vegar innan sjúkrahúsa, og hafa því ágæta þekkingu á málaflokknum. Það er mat okkar að þessi frétt RUV sé afar ónákvæm endursögn á upprunafréttinni hjá sænska ríkissjónvarpinu. Vonandi er að ástæðan sé fremur þýðingarvillur fréttamannsins en vísvitandi rangfærslur. Í lokin er ástæða til að minna fréttastofuna á að einkavæðing heilbrigðisþjónustunnar er allt annað en einkarekin heilbrigðisþjónusta. Ef fréttir eru hins vegar skrifaðar til þess að hafa skoðanamyndandi áhrif í eina átt frekar en aðra skiptir raunveruleg merking orða e.t.v. engu máli – hvorki á íslensku né sænsku í þessu tilviki.