Gunnar Bragi Sveinsson fyrrverandi ráðherra ætlar í framboð fyrir Miðflokkinn. Gunnar Bragi segir í samtali við Eyjuna í dag að það liggi ekki fyrir í hvaða kjördæmi hann verði í framboði, hann sé einungis að gefa kost á sér og það sé í höndum uppstillingarnefndar flokksins að ráða hvort eða hvaða sæti hann verði í og í hvaða kjördæmi.
Fyrst eftir stofnun Miðflokksins sagði Gunnar Bragi að hann yrði áfram í Framsóknarflokknum og stefndi hann á að berjast fyrir oddvitasætinu í Norðvesturkjördæmi. Stuttu síðar yfirgaf hann Framsóknarflokkinn og gekk til liðs við Miðflokkinn. Nú gefur hann kost á sér í framboð fyrir flokkinn:
Einn dagur er löng vika í pólitík,
segir Gunnar Bragi. Aðspurður í hvaða kjördæmi hann býður sig fram í segir hann:
Það liggur ekkert fyrir. Ég hef bara tilkynnt um að ég bjóði mig fram svo kemur hitt í ljós.