Hanna Katrín Friðriksson og Jón Steindór Valdimarsson skrifa:
Traust er eitt af lykilatriðum sem stjórnmálamenn verða að ávinna sér í störfum sínum. Það er von að svíði þegar almenningur ber ekki traust til stjórnmálamanns. Þar ber hverjum og einum að líta í eigin barm og koma fram af heiðarleika og auðmýkt gagnvart verkefnum sínum. Gott dæmi um þetta er atburðarásin sem spannst undir lok tilvistar þessarar ríkisstjórnar og kjölfar þess að hún sprakk með hvelli.
Haraldur Benediktsson er að því að við best vitum grandvar maður og vandur að virðingu sinni. Hann skrifar grein í Vesturland undir fyrirsögninni Óvæntar þingkosningar. Þar sendir hann Viðreisn og undirrituðum skeyti sem er rétt að bregðast við með nokkrum orðum.
Það var öðru fremur skortur á pólitískri forystu sem lagði grunn að þeirri atburðarás sem sprengdi ríkisstjórnarsamstarfið. Um það verður illa deilt. Það var einfaldlega nægur tími fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins að bregðast við stöðunni, þó ekki væri nema með samtölum við hina stjórnarflokkana tvo svona í fyrstu umferð. Tíminn var hins vegar ekki nýttur og því fór sem fór.
Eingöngu Sjálfstæðisflokkurinn getur útskýrt þá umræðu- og afgreiðsluhefð sem þar ræður ríkjum innanflokks. En endurtekin skilaboð um að flokkurinn sitji eftir á meðan samfélagið hefur þroskast og þróast í aðra átt, munu vonandi ná í gegn fyrr en síðar. Stöðugleikinn felst ekki í því að sitja fastur í gamalli heimsmynd.
Um atburðarás í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og tildrög þess að annar höfundur þessarrar greinar varð formaður nefndarinnar í stað flokksbróður Haraldar, Brynjars Níelssonar er þetta að segja:
Ákvörðun nefndarinnar um að skipta um formann í nefndinni snérist ekki um formlegt vanhæfi heldur um traust. Nefndin var að fjalla um flókið og erfitt mál og það skipti miklu máli að fólk gæti treyst því að unnið væri að þeim af fullum þunga og heilindum. Öll orðræða um það þarf að vera af yfirvegun. Fyrrverandi formanni nefndarinnar var það ekki lagið. Því til viðbótar varðaði málið óneitanlega ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Því hefði verið heppilegra að hann hefði sjálfur sýnt frumkvæði og stigið til hliðar. Hann gerði það ekki.
Rétt er að halda því til haga að fundurinn með dómsmálaráðherra var ekki að frumkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndinni heldur Pírata og sömuleiðis óskuði þeir eftir að hann yrði opinn. Allir nefndarmenn féllust á þá tillögu.
Fundurinn með umboðsmanni Alþingis var ekki haldinn að frumkvæði sjálfstæðismanna í nefndinni. Það frumkvæði kom frá öðrum. Tilgangurinn með þeim fundi var að heyra skoðanir og viðhorf hans til málsins og mögulega aðkomu. Heimsókn hans var því liður í frekari skoðun málsins. Sjálfstæðisflokkurinn á fjóra fulltrúa í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Enginn þeirra óskaði eftir því að fundurinn yrði opinn. Þeim var það í lófa lagið. Slík ósk kom ekki fram þannig að við henni var ekki hægt að bregðast. Þingsköp eru skýr í þessum málum. Í 19. grein þeirra segir „Fari að minnsta kosti fjórðungur nefndarmanna fram á slíkan fund skal formaður nefndarinnar leita eftir því með hæfilegum fyrirvara við þann sem beðinn er að koma á opinn fund að hann verði við því og gera honum grein fyrir tilefni fundarins.“
Áhugi fulltrúa sjálfstæðismanna á því að hafa fundinn með umboðsmanni opinn vaknaði fyrst eftir að umboðsmaður var farinn af fundi. Það var heldur seint.
Fundurinn með umboðsmanni var gagnlegur. Í sameiginlegri bókun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í kjölfar heimsóknar umboðsmanns segir: „Á fundi nefndarinnar benti umboðsmaður m.a. á að hafa verði í huga að ráðherrar eru annars vegar embættismenn og hins vegar stjórnmálamenn. Það kunni því að gilda mismunandi sjónarmið og reglur um störf og athafnir eftir því um hvort hlutverkið er að ræða.“
Hér er vikið að hinni pólitísku ábyrgð sem stjórnmálamenn bera. Hvaða viðbrögð þeir hafa uppi við tilteknar aðstæður. Sú ábyrgð snýst ekki bara um lög og reglur. Hvorki umboðsmaður né stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjalla um þá þætti málsins. Þar kemur traust, trúnaður og siðferði til skjalanna. Mælistiku þeirra þátta er ekki að finna í lagasafninu.