Vinstri græn mælast með 29,6% fylgi í Reykjavík norður og 27,9% í Reykjavík suður, en aðeins 16,6% í Suðvesturkjördæmi, kraganum, og 17,9% í Suðurkjördæmi. Á sama tíma mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 17,3% í Reykjavík norður, 24,3% í Reykjavík suður, 31,4% í kraganum og 26,6% í Suðurkjördæmi.
Þetta kemur fram í nýrri könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem greint er frá í Morgunblaðinu í dag. Könnunin er kjördæmaskipt og gefur því nákvæmari mynd af skiptingu þingmanna flokkanna eftir kosningar en kannanir sem gerðar eru á landsvísu. Einnig er munur á fylgi þessara stærstu flokka í Norðvesturkjördæmi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 28,6% og VG 23,6%. Í Norðausturkjördæmi hefur hins vegar VG nokkra yfirburði með 28,9% en Sjálfstæðisflokkurinn með slétt 18%.
Björt framtíð nær hvergi inn manni, sterkasta vígi flokksins er í Suðurkjördæmi þar sem flokkurinn fær 1,9%, Björt framtíð fengi svo 0,0% í Norðvesturkjördæmi. Stofnandi Viðreisnar, Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra næði ekki inn á þing í Norðausturkjördæmi þar sem Viðreisn fær aðeins 2,2%. Sterkasta vígi Viðreisnar er í kjördæmi formannsins Þorgerðar Katrínu Gunnarsdóttur þar sem flokkurinn fær 7,4%. Viðreisn er einnig sterk í höfuðborgarkjördæmunum. Alls næði Viðreisn inn 3 þingmönnum.
Framsóknarflokkurinn næði ekki inn manni í höfuðborginni, það þýðir að Lilja Alfreðsdóttir varaformaður dettur af þingi. Sterkasta vígi Framsóknarflokksins er í Suðurkjördæmi þar sem flokkurinn fengi 13,3%, 12,3% í Norðausturkjördæmi og 9,3% í Norðvesturkjördæmi. Willum Þór Þórsson næði svo inn á þing fyrir Framsókn í kraganum þar sem flokkurinn hefur 6% fylgi.
Miðflokkurinn nær ekki inn manni í Reykjavík suður en tveimur þingmönnum í Norðausturkjördæmi. Mælist flokkurinn með 16,7% í Norðaustur, 11% í Suðurkjördæmi, 10,7% í kraganum, 5,2% í Reykjavík suður, 6,2% í Reykjavík norður og 12,4% í Norðvestur.
Flokkur fólksins nær ekki inn manni, sterkasta vígi flokksins er í Norðvesturkjördæmi þar sem flokkurinn fær 5,2%.
Píratar eru með mest fylgi í Reykjavík suður, 11%, svo 10,3% í Reykjavík norður, 8,1% í kraganum, 7,6% í Suðurkjördæmi, 6,8% í Norðvestur og aðeins 2,6% í Norðaustur.
Samfylkingin er að ná höfuðborginni eftir afhröð síðustu kosninga þar sem flokkurinn náði ekki inn manni í Reykjavíkurkjördæmunum og kraganum, nú er Samfylkingin sterkust í höfuðborginni, fær flokkurinn 17,9% í Reykjavík norður, 17,1% í Reykjavík suður, 15% í kraganum, 14,9% í Norðaustur, 14,8% í Suðurkjördæmi og 12,4% í Norðvestur. Alls fer flokkurinn úr 3 þingmönnum í 11.
Könnunin var gerð dagana 16. til 19. október. Úrtakið var 3.900 manns og um var að ræða bæði síma- og netkönnun. Fjöldi svarenda var 2.395, sem er 62% þátttökuhlutfall.