„Að RÚV vinni fréttir úr stolnum gögnum sem lögbann hefur verið lagt við að nýtt séu til fréttaskrifa er eitt. Annað er tilgangur þessarar umfjöllunar ríkisfréttastofunnar, viku fyrir kosningar, sem engum dylst hver er,“ segir Sigurður Kári Kristjánsson fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins um umfjöllun RÚV um samskipti Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins við Glitni þegar Bjarni var þingmaður fyrir hrun. Fram kom í umfjöllun RÚV að Bjarni hefði verið í miklum samskiptum við Glitni frá 2003 til 2008, einnig var svo greint frá samskiptum annarra þingmanna Sjálfstæðisflokksins við Glitni, Sigurður Kári segir á Fésbók að RÚV hafi dregið upp „kolranga mynd“ af atburðunum fyrir hrun:
Kemur fram að ég hafi ásamt Bjarna Benediktssyni og félögum okkar, Ólöfu Nordal og Pétri H. Blöndal, heitin, átt í þessum samskiptum. Umfjöllun RÚV er þess eðlis að samskipti okkar við bankann hafi verið óeðlileg og að Glitnir og/eða viðskiptavinir bankans hafi fengið sérmeðferð hjá okkur umfram aðra, sérstaklega hjá Bjarna,
segir Sigurður Kári. Segir hann fréttamanninn og fréttastjóra hafa gleymt hvernig ástandið var í stjórnmálum og fjármálakerfinu fyrir hrun:
„Ég, Bjarni, Ólöf og Pétur, sem öll vorum þingmenn Sjálfstæðisflokksins, vorum skipuð í starfshóp þingflokksins sem átti að eiga samskipti við fjármálafyrirtækin, stór jafnt sem smá. Við áttum fundi með þeim flestum eða öllum og vorum í reglulegu sambandi við fulltrúa þeirra. Ekki bara fulltrúa Glitnis, eins halda mætti miðað við umfjöllun RÚV. Við vorum líka í reglulegum samskiptum við fulltrúa annarra banka, fjölda sparisjóða, sparisjóðabanka, lífeyrissjóða og eiginlega alla sem störfuðu á fjármálamarkaði með einum eða öðrum hætti sem vildu við okkur tala eða áttu við okkur erindi, sem við reyndum að sinna eða koma á framfæri við ráðherra og ráðuneyti.“
Hann, Bjarni, Ólöf og Pétur hafi átt í samskiptum við Glitni þar sem verið var að semja frumvarp sem átti að verja hagsmuni almennings:
Í umfjöllun RÚV var reynt að gera þau samskipti tortryggileg, líkt og við, og þá einkum Bjarni Benediktsson, værum að ganga erinda Glitnis í þeim samskiptum.
Ekkert er fjær sanni.
Umfjöllun RÚV dregur upp kolranga mynd af þeim atburðum sem þarna áttu sér stað og þeim tilgangi sem þeim var ætlað að þjóna.
Sannleikurinn er sá að við sem nafngreind erum í fréttinni vorum að vinna að frumvarpi til breytinga á skuldajöfnunarreglum gjaldþrotaskiptalaga. Tilgangurinn með þeim breytingum var ekki síst sá að koma í veg fyrir að kröfur lífeyrissjóðanna, þ.e. gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir lífeyrisþega í landinu, myndu renna inn í þrotabú gömlu bankanna og þar með enda í höndum erlendra kröfuhafa. Við vorum, með öðrum orðum, í harðri hagsmunagæslu fyrir almenning í landinu gegn erlendum kröfuhöfum. Við vorum að reyna að bjarga verðmætum. Við vorum ekki í hagsmunagæslu fyrir Glitni eins og halda mætti og áttum ekki í óeðlilegum samskiptum við starfsmenn þess banka.