Spurningar um Vestfirði vegna Alþingiskosninganna 2017, sem sendar voru öllum forsvarsmönnum framboða í Norðvesturkjördæmi.
Tilefni: Skýrsla Byggðastofnunar um hagvöxt landshlutans 2008 – 2015. Útg. ágúst 2017.
Upplýsingar sem fram koma í skýrslunni:
Hagvöxtur á Vestfjörðum: -6% , en +4% á landinu öllu.
Íbúaþróun: -4,6% , en +4,3% á landinu öllu.
Framleiðsla á mann: -2%, en 0% á landinu öllu. „2,7 milljónir króna á Vestfjörðum og 3,2 milljónir króna á landinu öllu.
Framleiðsla: 31% allrar framleiðslu á Vestfjörðum er í sjávarútvegi. Sjávarútvegur er 8% af framleiðslu landsins í heild.
Ársverk: 24% ársverka á Vestfjörðum er í sjávarútvegi og 2% í fiskveldi
Launatekjur á ársverk: Á Vestfjörðum voru launatekjur á ársverk að jafnaði 8% minni en að jafnaði á öllu landinu, en fyrir fáeinum áratugum voru meðaltekjur á Vestfjörðum hærri en annars staðar (bls 3).
Fiskveiðar: Laun á ársverk eru lægri í fiskveiðum á Vestfjörðum en annars staðar (bls 14).
Fjárhagsstaða fyrirtækja: Árið 2015 skulduðu útgerðir og iðnaðarfyrirtæki að jafnaði meira á Vestfjörðum en annars staðar (bls 6).
Hlutdeild Vestfjarða í atvinnugreinum: Árið 2015 var 7% af framleiðslunni í sjávarútvegi á Vestfjörðum og í ferðaþjónustu 1% ( bls 7 og bls 9, skipting þáttatekna). [Innskot ritstjóra: Hlutur Vestfirðinga í sjávarútvegi var um 16% um 1990.]
Fjármálaþjónusta og tryggingar 2015 á Vestfjörðum: aðeins ¼ af því sem umsvifin voru 2008. (bls 14).
Fasteignir á Vestfjörðum: Fasteignaverð er hvergi lægra en þar. Staðgreiðsluverð á fermetra í sérbýli var 88-89 þúsund krónur að jafnaði árið 2015, rúm 40% af landsmeðaltali.
Með vísan til ofangreindra upplýsinga er þess óskað að eftirfarandi spurningum verði svarað :
1. Píratar vilja gera grundvallarbreytingar á sjávarútvegskerfinu. Við viljum að ákvæði frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnskipunarlaga verði efnislega tekið upp í stjórnarskrá en þar er kveðið á um leyfi til hagnýtingar gegn fullu gjaldi og til hóflegs tíma í senn.
Við viljum bjóða aflaheimildir upp til leigu á opnum markaði og öll úrslit uppboða eiga að vera opinberar upplýsingar. Einnig teljum við að handfæraveiðar skuli gerðar frjálsar þeim sem kjósa að stunda þær til atvinnu. Með frjálsum veiðum einstaklinga á handfæri skal stuðlað að nýliðun ásamt kærkominni búbót fyrir gjörvallt landið.
Við teljum að gistináttagjald sé ákjósanleg leið til tekjuöflunar vegna uppbyggingar í ferðaþjónustu en það verði ekki föst upphæð heldur hlutfall af verði gistingar og skuli það gjald renna beint til sveitarfélaga sem hótel og gistiheimili eru staðsett í. Mikilvægt er að efld verði kynning á minna þekktum náttúruperlum í því skyni að dreifa vaxandi fjölda ferðamanna víðar um landið en tryggt um leið að innviðirnir muni bera þann fjölda.
2. Til þess að auka hagvöxt á Vestfjörðum þarf að stuðla að atvinnuuppbyggingu á svæðinu sem og að gera svæðið samkeppnishæft við önnur svæði, sérstaklega höfuðborgina.
Píratar munu stuðla að vexti og viðgangi fiskeldis eftir því sem aðstæður bjóða upp á. Mikilvægt er að standa faglega að málum og gæta m.a. að umhverfisáhrifum og ásýnd landsins. Gera þarf nauðsynlegar rannsóknir m.a. vegna áhrifa mótvægisaðgerða og forsendur mats á burðarþoli og umhverfisáhrifum verði opinberar og standist skoðun hvers sem er. Við úthlutun leyfa verður að gæta faglegra sjónarmiða.
Aðstoða þurfi sveitarfélögin til að verða fjárhagslega sjálfstæð til þess að þau geti staðið undir þeirri þjónustu sem þau eiga að veita. Hugmynd er uppi að gera hluta tekjuskatts fyrirtækis og virðisaukaskatt að útsvari til sveitarfélags. Þannig myndi hluti af hagnaði fyrirtækis sem og sala af vöru eða þjónustu fyrirtækis renna til nærsamfélagins.
3. Í Noregi er að finna sérstakan skattaafslátt í nyrstu héruðunum, nánar tiltekið í Finnmark og Nord-Troms. Þessi skattaafsláttur er tvíþættur. Annars vegar er um að ræða lægri skatthlutfall íbúa og hins vegar sérstakan persónuafslátt. Hér á landi hefur ekki tíðkast að veita skattaafslætti á tekjuskatt eftir mismunandi búsetu fólks en vert er að skoða hvort að slíkt myndi henta hér á landi en þá þyrfti að byrja á því að ákveða hvaða svæði hljóta afsláttinn, hvernig svæðin eru skilgreind og hvernig það yrði fært í lög.
Þó stendur til að hækka persónuafslátt hjá einstaklingum um 7.000 krónur á mánuði strax á næsta ári og fara alls upp í 26.000 króna hækkun á kjörtímabilinu svo persónuafsláttur haldist í við launaþróun. Hækkun persónuafsláttar hagnast tekjulágum mest og er réttlætismál í hugum Pírata.
4. Ef ráðist verður í þær leiðir sem nefndar eru hér að ofan: eflingu sveitarfélaganna, uppbyggingu fiskeldis og stuðning við ferðaþjónustu á svæðinu myndi efnahagsleg og félagsleg uppbygging á Vestfjörðum leiða til þess að framboð og eftirspurn á húsnæðismarkaði myndi breytast. Með fólksfjölgun á svæðinu verður til meiri eftirspurn eftir húsnæði sem leiðir til hærra íbúðaverðs.