Spurningar um Vestfirði vegna Alþingiskosninganna 2017, sem sendar voru öllum forsvarsmönnum framboða í Norðvesturkjördæmi.
Tilefni: Skýrsla Byggðastofnunar um hagvöxt landshlutans 2008 – 2015. Útg. ágúst 2017.
Upplýsingar sem fram koma í skýrslunni:
Hagvöxtur á Vestfjörðum: -6% , en +4% á landinu öllu.
Íbúaþróun: -4,6% , en +4,3% á landinu öllu.
Framleiðsla á mann: -2%, en 0% á landinu öllu. „2,7 milljónir króna á Vestfjörðum og 3,2 milljónir króna á landinu öllu.
Framleiðsla: 31% allrar framleiðslu á Vestfjörðum er í sjávarútvegi. Sjávarútvegur er 8% af framleiðslu landsins í heild.
Ársverk: 24% ársverka á Vestfjörðum er í sjávarútvegi og 2% í fiskveldi
Launatekjur á ársverk: Á Vestfjörðum voru launatekjur á ársverk að jafnaði 8% minni en að jafnaði á öllu landinu, en fyrir fáeinum áratugum voru meðaltekjur á Vestfjörðum hærri en annars staðar (bls 3).
Fiskveiðar: Laun á ársverk eru lægri í fiskveiðum á Vestfjörðum en annars staðar (bls 14).
Fjárhagsstaða fyrirtækja: Árið 2015 skulduðu útgerðir og iðnaðarfyrirtæki að jafnaði meira á Vestfjörðum en annars staðar (bls 6).
Hlutdeild Vestfjarða í atvinnugreinum: Árið 2015 var 7% af framleiðslunni í sjávarútvegi á Vestfjörðum og í ferðaþjónustu 1% ( bls 7 og bls 9, skipting þáttatekna). [Innskot ritstjóra: Hlutur Vestfirðinga í sjávarútvegi var um 16% um 1990.]
Fjármálaþjónusta og tryggingar 2015 á Vestfjörðum: aðeins ¼ af því sem umsvifin voru 2008. (bls 14).
Fasteignir á Vestfjörðum: Fasteignaverð er hvergi lægra en þar. Staðgreiðsluverð á fermetra í sérbýli var 88-89 þúsund krónur að jafnaði árið 2015, rúm 40% af landsmeðaltali.
Með vísan til ofangreindra upplýsinga er þess óskað að eftirfarandi spurningum verði svarað :
1. Hvernig hyggst þinn flokkur auka hlutdeild Vestfirðinga í sjávarútvegi og ferðaþjónustu á næsta kjörtímabili?
Við í Framsóknarflokknum viljum að það sé blómlegur sjávarútvegur hringinn í kringum landið og höfum lagt sérstaka áherslu á að standa vörð um lítil og meðalstór sjávarútvegsfyrirtækji, sem töluvert er um á Vestfjörðum, þegar umgjörð stjórnvalda um sjávarútveg er uppfærð. Það er sérstaklega mikilvægt þegar samþjöppun er sífellt meiri og m.a. á þeim ástæðum höfum við alfarið hafnað stórauknum veiðigjöldum á minni fyrirtækin sem eru sum hver að berjast í bökkum sem og uppboðshugmyndum sem myndu flýta samþjöppun ennfrekar. Meginmarkmið kvótakerfisins voru þrjú, tryggja sjálfbæra nýtingu, hagkvæmni og byggð um allt land. Fyrstu tveimur markmiðunum hefur verið náð en byggðaþátturinn hefur ekki tekist upp. Þess vegna verður að huga sérstaklega að byggða þættinum við allar breytingar m.a. til þess að útgerð á Vestfjörðum sé tryggð en um leið að passa að slátra ekki þeim mjólkurkúm sem fyrir eru þegar við erum að reyna að fjölga í stofninum.
Varðandi ferðaþjónustuna höfum við lagst gegn hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu m.a. vegna þess að sú hækkun myndi bitna helst á ferðaþjónustufyrirtækjum útá landi. Við verðum að dreifa ferðamönnunum betur og það gerum við meðal annars með bættu samgöngukerfi og uppbyggingu á innviðum. Ef við náum einnig að lengja ferðamannatímabilið yfir lengri tíma ársins verður einn af þessum grundvallaratvinnuvegum okkar Íslendinga, traustari og stöðugri.
2. Hvernig verður hagvöxtur á Vestfjörðum aukinn a.m.k. til jafns á við hagvöxt á landinu öllu?
Í fyrsta lagi verður að koma grunninnviðum í samt lag, ég get talað um tafarlausar aðgerðir til þess að koma veglagningu um Teigskóg áfram og vegagerð á Dynjandisheiði, ég horfi á hringtenginu rafmagns til þess að koma raforkumálunum í lag, ljósleiðaravæðing og 3 fasa væðing sveita en ekki síst bæting á grunnþjónustunni, heilbrigðisþjónustunni og menntakerfinu. Þetta eru allt hlutir sem Framsóknarflokkurinn mun beita sér fyrir. Þessu til vitnis er rétt að nefna að fyrir rúmlega ári síðan skilaði nefnd skipaðri heimamönnum í forsætisráðherratíð minni, Aðgerðaráætlun um Vestfirði. Þar eru margar góðar tillögur sem við hófum strax að setja í framkvæmd en því miður hefur áhugi fráfarandi stjórnarflokka verið hverfandi og engum tillögum verið hrint í framkvæmd síðan við fórum frá.
Það er mín trú að ef að ríkið komi strax að uppbyggingu á þessum grunn innviðum og grunnþjónustu og Vestfirðingar fái að nýta sínar auðlindir með skynsömum og ábyrgum hætti, ég nefni þar laxeldi sérstaklega, er það bjargföst trú mín að Vestfirðir muni blómstra í framhaldinu og hagvöxtur ekki verða minni en annarsstaðar.
3. Hvernig verður unnið að því að laun á Vestfjörðum verði ekki lægri en annars staðar á landinu? Kemur þar til greina að bæta lágtekjusvæðum upp lægri tekjur með tekjujafnandi aðgerðum svo sem hærri persónuafslætti?
Við höfum horft til Noregs varðandi róttækar byggðaaðgerðir og voru slíkar tillögur í nýrri byggðaáætlun sem Jón Gunnarsson hefur reyndar legið á í að verða 1 ár. Í Noregi er landinu skipt uppí svæði þar sem tryggingargjald lækkar á fyrirtæki því lengra sem komið er frá höfuðborginni, tekjuskattur er einnig lægri á svæðum sem hafa minni þjónustu og afsláttur er gefinn af námslánum á afskekktum svæðum. Við viljum koma slíkum aðgerðum af stað en þar með sagt erum við ekki að segja að við ætlum ekki að bæta grunnþjónustuna vegna þessara afslátta, að sjálfsögðu þarf að ráðast í þetta bæði þannig þetta haldist í hendur. Vestfirðir væru klárlega fyrsta svæðið til þess að njóta slíkra aðgerða.
4. Hvaða ráðstafanir hyggst flokkurinn ráðast í til þess að hækka íbúðaverð a.m.k. til jafns á við almenna hækkun á landsvísu hverju sinni?
Ég vísa til svara minna hér fyrir ofan, atvinnuástand skiptir þar lykilatriði. Þegar við verðum búinn að tryggja ábyrgt og sjálfbært fiskeldi á sunnanverðum og norðanverðum Vestfjörðum og styðja við sjávarútveginn og ferðaþjónustufyrirtækin sem eru aðalatvinnuvegir Vestfirðinga mun atvinnuástandið snúast við eins og við höfum séð núþegar á sunnanverðum Vestfjörðum. Samgöngurnar og raforkuafhendingin þurfa að vera fullnægjandi og grunnþjónustan, heilbrigðismálin og menntakerfið verða að vera fjármögnuð þannig sómi sé af þá munu hlutir eins og íbúðarverð og hagvöxtur fylgja með. Framsóknarflokkurinn hefur alltaf átt rætur sínar í hinum dreifðu byggðum og mun alltaf berjast fyrir hagsmunamálum íbúa landsbyggðanna. Á því verður engin breyting í þessum kosningum heldur þvert á móti, eftir mikilvægar efnahagsframfarir undanfarin ár eftir hrunið eru nú kjöraðstæður til þess að ráðast í framkvæmdir á innviðum og grunnþjónustunni. Getum við ekki öll verið sammála um það?