Aðeins átta dagar eru til kosninga og því naumur tími til að koma stefnumálum sínum á framfæri. Boðað var til kosningar með mun skemmri fyrirvara en venjan er og því hafa flokkarnir ekki haft mikinn tíma til að undirbúa kosningabaráttuna. Flokkarnir hafa ekki úr jafn miklum fjármunum að moða líkt og sjá má þegar kosningabaráttan í dag er borin saman við kosningabarátturnar fyrir hrun þar sem frambjóðendur eyddu jafnvel tugum milljóna í prófkjör fyrir kosningar. Þó er nokkuð um auglýsingar á skiltum við strætisvagnastöðvar, í dagblöðum, í útvarpi sem og á samfélagsmiðlum, erlendum vefsíðum í gengum Google Ads og á myndbandaveitunni Youtube. Allt kostar þetta, en hvað er stjórnmálaflokkur tilbúinn til að borga til að koma skilaboðum sínum og frambjóðendum á framfæri?
Sjálfstæðisflokkurinn – 35+ milljónir
Greint er frá því í Morgunblaðinu í dag að Sjálfstæðisflokkurinn eyði á landsvísu allt að 35 milljónum króna í kosningabaráttuna. Segir Þórður Þórðarson framkvæmdastjóri flokksins að það sé líklegast ekki heildarupphæðin þar sem einstaka félög og fulltrúaráð afli sjálf fjár og standi fyrir útgjöldum.
Vinstrihreyfingin grænt framboð – 30 milljónir
Samkvæmt Viðskiptablaðinu eyðir VG rúmlega 30 milljónum króna í kosningabaráttuna. Björg Eva Erlendsdóttir framkvæmdastjóri VG segir að tveir þriðju útgjaldanna fari í birtingu auglýsinga og til þeirra sem framleiða auglýsingar fyrir flokkinn. 418 þúsund krónum sé svo skipt niður til kjördæmanna sem hafi ráðið kosningastjóra. Tekur hún einnig fram að inni í upphæðinni sé kostnaður flokksins við landsfund sem haldinn var í byrjun október.
Viðreisn – 20 milljónir
Viðreisn ætlar að eyða rúmlega 20 milljónum króna í kosningabaráttuna. Segir Birna Þórarinsdóttir að rúmlega helmingur fari í birtingar á auglýsingum og hinn helmingurinn til þeirra sem framleiða auglýsingar fyrir flokkinn.
Píratar – 15 milljónir
Píratar ætla að eyða rúmlega 15 milljónum króna í kosningabaráttuna. Segir Erla Hlynsdóttir framkvæmdastjóri við Morgunblaðið að fjármunum flokksins sé skipt niður af flokksstjórn á kjördæmi. Flokkurinn hópfjármagnar meðal annars kosningabaráttuna í gengum Karolina Fund.
Samfylkingin – 13+ milljónir
Samfylkingin eyði rúmlega 13 milljón krónum í kosningabaráttuna. Segir Hrannar Björn Arnarson framkvæmdastjóri flokksins við Viðskiptablaðið að átta milljónir fari til birtingu og framleiðslu auglýsinga fyrir flokkinn. 2,5 milljónir er skipt niður milli kjördæmanna, sem munu einnig afla fjár sjálfstætt.
Björt framtíð – 5 milljónir
Björt framtíð eyðir rúmlega 5 milljónum króna í kosningabaráttuna. Segir Valgerður Pálsdóttir framkvæmdastjóri Bjartrar framtíðar að féið renni að mestu leyti til auglýsinga í staðarblöðum, útvarpi og á samfélagsmiðlum.