Hörður Ægisson ritstjóri Markaðarins deilir harkalega á tillögur Vinstri grænna og Samfylkingarinnar um verulega aukningu ríkisútgjalda í leiðara Fréttablaðsins í dag, segir hann að málflutningur um að það eigi ekki að hækka skatta á almenning standist enga skoðun:
„Fyrir liggur að tveir stjórnmálaflokkar – Vinstri grænir og Samfylkingin – hafa lagt til að útgjöld ríkissjóðs aukist árlega um 50 til 75 milljarða á árunum 2018 til 2022. Öllum má vera ljóst að útgjaldaaukning af slíkri stærðargráðu, sem nemur um öllum greiddum tekjuskatti fyrirtækja á þessu ári, verður ekki fjármögnuð nema með umtalsverðum skattahækkunum. Þetta á ekki að þarfnast útskýringa. Sömu flokkar hafa hins vegar að mestu látið hjá líða að gera grein fyrir því hvaðan fjármunirnir eigi að koma – nema þá aðeins að ekki standi til að hækka skatta á almenning. Þess í stað eigi að hækka útgjöldin með sérstakri skattlagningu á ríkasta og tekjuhæsta hópinn í samfélaginu. Ekki er þetta trúverðugur málflutningur,“
segir Hörður. Sýnir hann í framhaldinu fram á að upptaka hátekju- og auðlegðarskatta muni hrökkva skammt muni hrökkva skammt og að þegar upp verði staðið munu hugmyndir flokkanna tveggja bitna á almenningi:
Staðreyndin er sú að tillögur um að stórauka útgjöld ríkissjóðs um tugi milljarða á hverju ári, án þess að ráðast í skattahækkanir á millitekjufólk, standast enga skoðun. Tekjujöfnuður er hvergi meiri meðal þróaðri ríkja en á Íslandi sem er einmitt ástæða þess að jafnvel mjög hár hátekjuskattur myndi skila afar litlum viðbótartekjum í ríkissjóð. Um þetta er óþarfi að deila. Kjósendur eru ekki fífl og þeir munu sjá í gegnum þann blekkingarleik sem sumir stjórnmálaflokkar hafa kosið að bjóða upp á.