Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis og þingkona Sjálfstæðisflokksins, hrósaði samflokksmanni sínum Brynjari Níelssyni á Facebook á laugardaginn þar sem hún sagði hann vera mesta töffara landsins.
Þessa nafnbót sæmdi forseti Alþingis þingmanninn með þessum orðum:
Þú ert landsins mesti töffari!
eftir að Brynjar gaf eftir fyrsta sæti á framboðslista flokksins í Reykjavík suður. Hann ákvað að víkja fyrir Sigríði Andersen dómsmálaráðherra sem skipar því efsta sætið en Brynjar sest í annað sætið.
Illu heilli fyrir Unni Brá sjálfa virðast sjálfstæðiskarlar í hennar kjördæmi, Suðurkjördæmi, ekkert of uppteknir af því að sýna karlmennsku, þor og töffaratakta.
Þar eru fyrir á fleti í efstu sætum þeir Páll Magnússon og Ásmundur Friðriksson en Unni Brá hefur verið stillt upp í fjórða sæti, sem hlýtur að teljast fallbaráttusæti. Hún hefur þvert á flokkalínur, þótt standa sig ákaflega vel sem þingforseti en ekki dugði það henni til þess að karlarnir í kringum hana stæðu upp fyrir henni og tryggðu henni öruggt þingsæti.
Munurinn er sjálfsgat fyrst og fremst sá að Brynjar stofnar sæti sínu í takmarkaða hættu með töffaratöktunum í Reykjavík. Þótt töffarafræðin geri almennt ráð fyrir því að alvöru töffarar öðlist þá nafnbót með því að leggja allt undir og taka sénsinn án þess að hugsa um eigin hag.