Ekki er verið að leggja lögbann á umfjöllun Stundarinnar, heldur er lagt lögbann á að Stundin megi nota illa fengnar upplýsingar þar sem það bryti í bága við lög að nota þær upplýsingar. Þetta kom fram í máli Brynjars Kvaran sviðsstjóra fullnustusviðs hjá embætti Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Brynjar mætti ásamt Þórólfi Halldórssyni sýslumanni og Þuríði Árnadóttur sviðsstjóra hjá embættinu á opinn fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun.
Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata gagnrýndi sýslumann fyrir að hafa ekki kynnt sér afstöðu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu sem hvatti til að lögbanninu yrði aflétt:
Einhvern veginn hefur ÖSE yfirsést að senda sýslumanni þetta plagg. Ég veit ekkert hvað stendur í þessu skjali,
sagði Þórólfur í svari sínu við spurningu Jóns Þórs. Sagði Jón Þór að sýslumaður væri því ekki búinn að kynna sér málið til hlýtar þar sem sýslumaður gæti ekki svarað spurningum um staðla ÖSE um vernd og takmörkun á tjáningarfrelsi. Sagði Þórólfur að embættið færi eftir þeim lögum sem sett væru af Alþingi og það væri ekki horft til umræðu í þjóðfélaginu þegar kæmi að ákvarðanatökum. Sagði Brynjar að sýslumaður hefði ekki fallist alfarið á beiðni Glitnis um lögbann, en þar sem fallist hefði verið á lögbannskröfuna þá gilti hún í viku en félli niður ef gerðarbeiðandi fengi ekki lögbannið staðfest hjá dómstólum.
Þetta má er ekkert sérstakt að því leytinu til,
sagði Brynjar Kvaran. Svandís Svavarsdóttir þingmaður Vinstri grænna spurði sýslumann hvers vegna hann hefði tekið fram í yfirlýsingu að hann bæri fullt traust til lögfræðinga á fullnustusviði, svaraði Þórólfur að starfsmenn hefðu orðið fyrir ómaklegum ásökunum í tengslum við þetta mál sem þeir tækju nærri sér. Sagði Þórólfur að fjallað hefði verið „ótæpilega“ um starfsmenn sem hefðu komið að málinu.
Þingmenn Pírata og Vinstri grænna hafa krafist þess að nefndin fái afhent öll gögn sýslumanns um málið.