Meirihluti Íslendinga er andvígur lögbanni Sýslumannsins í Reykjavík á fréttaflutning Stundarinnar úr gögnum Glitnis, eða 77%. Einungis 11,4% Íslendinga var fylgjandi lögbanninu og kváðust 11,6% hvorki fylgjandi né andvígir. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar MMR.
Athygli vekur að stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins var líklegra til að segjast fylgjandi lögbanninu, borið saman við aðra stjórnmálaflokka. Þannig voru 34% af stuðningsfólki Sjálfstæðisflokksins fylgjandi lögbanninu, á meðan enginn af stuðningfólki Vinstri grænna var fylgjandi því. Fjórðungur Sjálfstæðismanna tók ekki afstöðu til spurningarinnar og annar fjórðugur var mjög andvígur lögbanninu.
Af stuðningsfólki annarra flokka kom í ljós að 18% af stuðningsfólki Framsóknar kváðust fylgjandi, 5% af stuðningsfólki Viðreisnar, 4% af stuðningsfólki Samfylkingarinnar og 1% af stuðningsfólki Pírata kváðust fylgjandi lögbanni Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á fréttaflutninginn.
Könnunin var gerð dagana 17.-18. október 2017. 1007 einstaklingar, 18 ára og eldri, svöruðu.