Eyjan mun fram að kjördegi bjóða framboðum sem taka þátt í Alþingiskosningunum 28. október næstkomandi að svara spurningum um ýmis málefni, allt frá samgöngumálum til afstöðu flokka til uppreist æru.
Í dag er spurt:
Hverjar eru áherslurnar í heilbrigðismálum?
Svörum flokkanna er raðað eftir listabókstaf framboðsins.
Björt framtíð – X-A
Heilbrigðisráðherra Óttarr Proppé hefur undanfarna mánuði unnið, fyrstur heilbriðisráðherra, að heildarstefnumótun á sviði heilbrigðismála. Hún er langt komin. Þar er að finna langþráða framtíðarsýn og framkvæmdaáætlun og skilgreiningu á þjónustunni og mælikvarða á gæði hennar. Á þeim mánuðum sem Björt framtíð hefur farið með stjórn mála hefur aðaláherslan verið lögð á þrennt.
Í fyrsta lagi eflingu þjónustunnar innan heilsugæslunnar með fjölgun fagaðila, samvinnu og þverfaglegt samstarf. Sérstök áhersla hefur einnig verið lögð á málefni aldraðra s.s. varðandi hjúkrunarrými, sérhæfða heimaþjónustu og dagdvöl.
Í þriðja lagi hefur sérstök áhersla verið lögð á geðheilbrigði þar sem geðheilbrigðisáætlun hefur verið fylgt af festu þar sem sálfræðingar eru nú hluti af heilsugæsluþjónustu, Barna- og unglingageðdeild hefur verið styrkt auk þess sem unnið er að því hörðum höndum að koma á fót fjarheilbrigðisþjónustu. Þess utan er unnið að mörgum brýnum verkefnum s.s. bættri teymisvinnu milli stofnana og bættri stjórnun þeirra. Má einnig nefna lýðheilsumálefni, lyfjamál, nýjan Landspítala, mönnunarvanda í heilbrigðiskerfinu og endurskoðun á ýmsum samningum Sjúkratrygginga Íslands í þeim tilgangi að tryggja góða nýtingu á almannafé.
Hluti af því verkefni tengist heilbrigðisstefnunni og spurningum um það hvar veita eigi heilbrigðisþjónustu. Stefna Bjartrar framtíðar er að halda áfram á sömu braut og halda áfram stefnumótun og endurskipulagningu stofnana og kerfa innan heilbrigðisþjónustunnar og tryggja að unnt verði að veita bestu heilbirgðisþjónustu sem völ er á.
Framsóknarflokkurinn – X-B
Framsókn vill fjárfesta í heilbrigðis-, samgöngu- og menntamálum
Setja þarf 20 milljarða í heilbrigðis-, samgöngu- og menntamál til að bregðast við brýnni þörf. Framsókn telur mikilvægt að nota ríflegan afgang af ríkisrekstri til að fjárfesta í betra heilbrigðiskerfi, betri lífsgæðum og betri samgöngum ásamt því að lækka skuldir ríkissjóðs.
Framtíðarmarkmiðið er að veikir borgi ekki
Kostnaðarþátttaka sjúklinga á Íslandi er hærri en á Norðurlöndunum. Núverandi kerfi er íþyngjandi sérstaklega ef fólk er búið að greiða hámark kostnaðar vegna læknisþjónustu og lyfja. Sameina þarf þessi tvö kerfi. Framsókn vill enn fremur að tannlækninga-, sálfræði- og ferðakostnaður sjúklinga falli undir greiðsluþátttökukerfið. Framtíðarmarkmið er að veikir borgi ekki.
Framsókn vill heilbrigðisáætlun fyrir Ísland
Almenn eining ríkir um að gera þurfi betur í heilbrigðismálum á Íslandi. Framsókn stóð fyrir samþykkt heilbrigðisáætlunar fyrir Ísland. Þrjú verkefni þola ekki bið. Hjúkrunarheimilum þarf að fjölga, reisa þarf þjóðarsjúkrahús og efla þarf heilsugæslu. Framsókn vill greina hvar brýnasta þörfin er fyrir grunnþjónustu.
Framsókn vill að sálfræðiþjónusta verði hluti af heilbrigðiskerfinu
Sálfræðiþjónustu á að greiða niður strax. Um 20% barna og ungmenna hafa einhvern tíma fyrir 18 ára aldur þurft að leita aðstoðar vegna geðrænna erfiðleika. Bregðast þarf snemma við þegar geðrænir erfiðleikar gera vart við sig hjá börnum og fullorðnum. Framsókn vill fjölga sálfræðingum í heilsugæslunni og að sálfræðiþjónusta verði niðurgreidd og verði hluti af greiðsluþátttökukerfinu eins og önnur heilbrigðisþjónusta.
Framsókn vill fjölga sérfræðilæknum á geðsviði
Geðlækna vantar á heilbrigðisstofnanir. Framsókn vill fjölga geðlæknum á heilbrigðisstofnunum víðsvegar um landið og létta álaginu af Landspítalanum. Hörmulegt er að horfa upp á að stór hluti af ungu fólk glími við geðræna erfiðleika. Geðlæknum þarf að fjölga, strax.
Framsókn vill hefja undirbúning að nýjum Landsspítala á betri stað
Framtíðarstaður Landspítalans er ekki við Hringbraut. Þrátt fyrir að framkvæmdir við Hringbraut klárist þarf að huga tímanlega að því að nýr spítali verði byggður á nýjum stað sem rúmi allar deildir, m.a. geðdeild, en það er ekki í boði við Hringbraut. Sjúklingar þurfa betri aðstöðu og horfa þarf bæði til líkamlegra og andlegra veikinda. Starfsfólk þarf betri aðstöðu.
Viðreisn – X-C
Forgangsraða þarf í ríkisfjármálum í þágu fjárfestingar í heilbrigðismálum. Ljúka þarf endurbyggingu Landspítala við Hringbraut fyrir árið 2022. Leggja þarf sérstaka áherslu á uppbyggingu í öldrunarþjónustu, til dæmis heimahjúkrun og öldrunarheimili. Styrkja þarf heilsugæsluna um land allt sem fyrsta viðkomustað og einfalda leið fólks um heilbrigðiskerfið. Biðlista eftir heilbrigðisþjónustu þarf að stytta eins og framast er unnt. Skilgreina þarf þjónustu sem allir eiga rétt á í sinni heimabyggð. Þarfir notenda, gott starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna og gott eftirlit með þjónustunni á að fara saman.
Velferðarkerfið stuðli að því að allir hafi möguleika til vinnu og geti nýtt hæfileika sína og krafta til fulls. Á Íslandi verði fjölskylduvænt samfélag sem stenst samanburð innan Norðurlanda, meðal annars í húsnæðismálum og umönnun barna og aldraðra. Ríki og sveitarfélög samræmi stefnu og vinni saman að því að veita heildstæða þjónustu.
Bætum heilsu og eflum forvarnir með markvissri lýðheilsustefnu
Heilsuefling og forvarnir eiga að vera forgangsmál í heilbrigðisþjónustunni sem langtímafjárfesting í heilbrigði og vellíðan þjóðarinnar. Tryggja þarf hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu. Skólar og sveitarfélög verði virk við heilsueflingu og forvarnir. Sett verði markviss og mælanleg lýðheilsustefna og tillit tekið til áhrifa á heilsu og heilbrigði þjóðarinnar í allri stefnumótun ríkisins. Hækkandi lífaldur og vaxandi hlutfall lífsstílssjúkdóma undirstrika mikilvægi heilsueflingar og forvarna.
Bætum forvarnir og meðhöndlun geðsjúkdóma
Lögð verði aukin áhersla á meðhöndlun geðrænna vandamála og forvarnir í tengslum við þau. Bætt verði aðgengi að sálfræðiþjónustu og hún fari í skrefum inn í tryggingakerfið. Vanlíðan er oft rót heilsufarsvandamála og mikilvægt er að styðja við börn og ungmenni með sálfræðihjálp. Þannig má mögulega draga úr brottfalli úr skólum, þunglyndi og vanlíðan.
Greiðsluþátttaka sjúkratrygginga endurskoðuð
Greiðsluþátttaka verði byggð á sanngirni og miðist við hverja fjölskyldu. Útfærslan taki mið af greiðslugetu allra samfélagshópa. Of mikil greiðsluþátttaka getur valdið því að einstaklingar leiti ekki eftir læknisþjónustu og nauðsynlegum lyfjum í tæka tíð. Heildarkostnaður samfélagsins verður þá meiri á endanum.
Hagkvæmari rekstur með meiri afköstum
Afkastageta heilbrigðiskerfisins verði aukin, biðlistar styttir og þjónusta bætt. Komið verði á fjármögnunarkerfi þar sem fjármagn fylgir einstaklingunum. Lokið verði við samræmingu skráningar í heilbrigðiskerfinu öllu svo að upplýsingar fylgi sjúklingi. Nýttir verði kostir fjölbreyttra rekstrarforma til þess að ná ofangreindum markmiðum, m.a. með hliðsjón af rekstrarformi heilbrigðisþjónustu í nágrannalöndum.
Ávallt verði leitast við að hámarka afkastagetu heilbrigðiskerfisins og unnið í samræmi við viðurkennda alþjóðlega gæðastaðla. Boðið verði upp á fjölbreyttar þjónustuleiðir og samræmingu verkferla í heilbrigðiskerfinu. Efla þarf samvinnu milli heilbrigðisstofnana. Fjarlækningar verði efldar sem og fjarþjónusta á sviði sálfræði og stuðningsþjónustu.
Uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut verði hraðað og lokið eigi síðar en 2022.
Tryggja þarf að íslenska heilbrigðiskerfið sé og verði eftirsóknarverður vinnustaður sem laðar að og heldur í hæft starfsfólk.
Sjálfstæðisflokkurinn – X-D
Heilbrigðisþjónusta óháð efnahag
Lækka þarf kostnað sjúklinga enn frekar
Við viljum ljúka framkvæmd geðheilbrigðisstefnunnar og fylgja henni eftir
Efla þarf heilsugæsluna
Fjölga verður hjúkrunarrýmum og auka þjónustu við aldraða
Við ætlum að innleiða tækninýjungar í heilbrigðisþjónustu
Forvarnir og heilsuefling almennings
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á góða og öfluga heilbrigðisþjónustu sem er einn af hornsteinum íslensks velferðarsamfélags og mikilvægur þáttur í að tryggja góð lífskjör og samkeppnishæfni við aðrar þjóðir. Efnahagur fólks má ekki vera nokkrum hindrun í að leita sér lækninga og ná bata. Nýju greiðsluþátttökukerfi hefur verið komið á, þar sem sett hefur verið þak á kostnað einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustu og börn eiga kost á gjaldfrjálsri þjónustu. Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að lækka kostnað sjúklinga enn frekar.
Undir forystu Sjálfstæðisflokksins verður uppbyggingu heilbrigðiskerfisins haldið áfram. Fjármögnun nýs Landspítala hefur verið tryggð og nauðsynlegt er að framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hans gangi eftir. Fjölga þarf hjúkrunarrýmum, efla heimahjúkrun og stytta biðlista. Eins þarf að leggja aukið kapp á að halda í og laða til okkar heilbrigðisstarfsfólk á heimsmælikvarða. Þá verður að tryggja betur aðgengi landsbyggðarinnar að hvers konar sérfræðiþjónustu. Áfram verður að hlúa að heilsugæslunni sem fyrsta viðkomustaðar í heilbirgðiskerfinu. Fjölga verður heilsugæslustöðvum og auka þjónustu þeirra, ekki síst á sviði geðheilbrigðis.
Ljúka þarf gerð langtíma heilbrigðisstefnu fyrir Ísland. Skilgreina þarf kjarnahlutverk Landspítalans frekar og tryggja spítalanum fjármagn til að sinna því mikilvæga hlutverki að vera þjóðarsjúkrahús. Styrkja þarf stöðu Landspítalans sem rannsókna- og kennslusjúkrahús. Horfa verður til þess hvort hægt sé að nýtta skattfé betur og auka þjónustu með því að nýta áfram möguleika á fjölbreyttu rekstrarformi með áherslu á skýrar gæðakröfur samhliða jafnræði í greiðslum óháð rekstrarformi. Við viljum efla fjarheilbrigðisþjónustu, nýta upplýsinga- og samskiptatækni betur.
Við viljum ljúka framkvæmd geðheilbrigðisstefnunnar og fylgja henni eftir. Greina verður og takast á við vandamál á fyrstu stigum og tryggja aðgengi allra að sálfræðiþjónustu, óháð búsetu. Leggja þarf aukna áherslu á forvarnir í geðheilbrigðismálum og auðvelda heilsugæslunni að sinna frumþjónustu við fólkmeð geðræn vandamál. Sérstaklega þarf að huga að brýnni þörf ungmenna á þessu sviði.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á forvarnir og heilsueflingu almennings og að stuðlað verði að heilbrigðari lífsháttum m.a. með fræðslu um ávinning hreyfingar og hollra lifnaðarhátta.
Flokkur fólksins – X-F
Flokkur fólkssins leggur áherslu á að allir eiga rétt á að leita sér lækninga óháð efnahag. Þann rétt megi aldrei flokka sem forréttindi heldur sem sjálfsögð mannréttindi sem séu tryggð í stjórnarskrá. Grunnheilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls fyrir alla. Framlög til heilbrigðisþjónustu í hlutfalli við landsframleiðslu verði aukin. Nýr Landspítali rísi á nýjum stað.
Píratar – X-P
Hlustum á þjóðina
Framsýn stjórnvöld tryggja að allir fái bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu þegar þörf krefur, óháð efnahag og óháð búsetu. Við þurfum að gera Landspítalann samkeppnishæfan um starfsfólk til að koma í veg fyrir manneklu, en langtímamarkmið Pírata er gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta í hæsta gæðaflokki. Áður en við náum þangað er nauðsynlegt að fjölga starfsfólki, bæta tækjabúnað og tryggja að fjármunir nýtist sem best. Aðalatriðið er að tryggja mannsæmandi þjónustu og stuðning, og það er fyrst og fremst stjórnvalda að tryggja það.
Píratar byggja fjárlaga-áherslur sínar á Gallup-könnunum sem þingflokkurinn hefur pantað með reglulegu millibili. Þær staðfesta að íslenska þjóðin vill auka fjármagn til heilbrigðismála og setur það ítrekað í forgang sinn. Píratar hafa útlistað hvernig þeir sjá fjárlagafrumvarp 2018 fyrir sér og hvetja aðra flokka til að leggja fram svipuð gögn, en þar kemur fram m.a. 1,5 milljarða aukning til lyfjakaupa, auk þess sem verulegt fjármagn til viðbótar rennur til rekstrar Landspítalans.
Átak í geðheilbrigðismálum
Andleg heilsa er ekki síður mikilvæg en líkamleg. Andleg umönnun og sálfræðiþjónusta á að vera hluti af heilbrigðisþjónustunni. Sér í lagi er nauðsynlegt að nægilegt starfsfólk sé til staðar svo hægt sé að taka á móti bráðatilvikum hvenær sem er sólarhrings og engum í neyð sé vísað burt. Sér í lagi er mikilvægt að geta viðhaldið eftirliti með þeim sem eru í sjálfsvígshættu og útskrifa engan áður en viðkomandi einstaklingur er reiðubúin til að fara út.
Fíkn sem heilbrigðisvandamál
Píratar líta á fíkn sem heilbrigðisvandamál og vilja því víkja frá harðri refsistefnu og yfir í úrræði sem raunverulega virka til að draga úr neyslu ávanabindandi efna. Mikilvægt er að hætta félagslegu fordómum gagnvart jaðarhópum svo manneskjur eigi auðveldara með að leita sér hjálpar.
Alþýðufylkingin – X-R
Endurreisn heilbrigðiskerfisins hefur algeran forgang hjá Alþýðufylkingunni, enda er verkið óvinnandi öðruvísi en sem algert forgangsverk.
Heilbrigðiskerfið er stórskaðað eftir áratugi frjálshyggjunnar, eftir alla borgaralegu stjórnmálaflokkana. Það er sár og vaxandi þörf fyrir alhliða endurreisn spítala og heilsugæslu, um allt land. Það þarf að gera róttækar breytingar á lyfjaiðnaði og lyfjaverslun. Það þarf að taka sálfræðiþjónustu og tannlækningar inn í opinbera heilbrigðiskerfið. Það þarf að auka útgjöld til þessa fjársvelta málaflokks en ekki síst þarf að nota peningana betur í heilbrigðismál og minna í arð handa fyrirtækjum sem lifa sníkjulífi á heilbrigðiskerfinu.
Við höfum hvorki efni á að sóa né spara við okkur í heilbrigðismálum vegna þess að heilsuleysi er dýrt fyrir þjóðfélagið og skerðir lífskjör og efnahag fólks.
Fyrsta flokks heilbrigðisþjónusta er fyrir alla. Núna leitar fimmti hver Íslendingur sér ekki læknis vegna kostnaðar. Allir eiga að fá þá heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa eftir því sem tækni og þekking leyfa, án tafa eða endurgjalds og sem næst heimili sínu. Þetta eru mannréttindi, og heilbrigðiskerfi sem nær ekki þessu máli er ekki fyrsta flokks.
Samfylkingin – Jafnaðarmannaflokkur Íslands – X-S
Öflug heilbrigðisþjónusta fyrir alla
Gjaldfrjálsa opinbera heilbrigðisþjónustu fyrir alla
Ekkert brask með heilbrigði fólks
Geðheilbrigði ungs fólks í algeran forgang
Stórsókn gegn ofbeldi – höfum hátt!
Stórauknum framlögum var lofað til heilbrigðisþjónustu, vegagerðar og löggæslu í síðustu kosningabaráttu. Um 86 þúsund manns skrifuðu undir áskorun um að endurreisa heilbrigðiskerfið. Fráfarandi stjórnarflokkar lofuðu að setja þessi mál í algjöran forgang en ekkert hefur verið gert með þennan vilja þjóðarinnar. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er þjónusta við sjúklinga á spítölum skorin niður en útgjöld aukast vegna starfsemi einkafyrirtækja.
Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands, hafnar niðurskurðar- og einkavæðingarstefnu núverandi ríkisstjórnarflokka og mun á komandi kjörtímabili og í mögulegum stjórnarmyndunarviðræðum beita sér af alefli, fyrir öflugri heilbrigðisþjónustu fyrir alla. Þessi verkefni eru þar brýnust:
Eflum opinbera gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu og höfnum einkavæðingu
Tryggjum grunnstoðirnar og eflum heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustaðinn í heilbrigðiskerfinu
Geðheilbrigði ungs fólks fái sérstakann forgang með andlegri og líkamlegri heilsueflingu í leik-, grunn- og framhaldsskólum
Eflum sálfræðiþjónustu á heilsugsæslustöðvum og í skólum – 100 nýjir sálfræðingar um allt land
Lækkum strax greiðsluþátttöku sjúklinga
Ráðumst í átak gegn ofbeldi
Ljúkum uppbyggingu þjóðarsjúkrahússins við Hringbraut
Vinstrihreyfingin grænt framboð – X-V
Heilbrigðiskerfi fyrir almenning
Félagslegur rekstur heilbrigðisþjónustunnar er grundvallaratriði. Einkarekstur í ágóðaskyni á ekki heima í velferðarþjónustunni. Arðgreiðslur úr heilbrigðisþjónustu eru óásættanlegar, grunnþjónusta og rekstur sjúkrahúsa er ekki gróðavegur.
Aukin framlög til heilbrigðisþjónustu
Auka þarf framlög ríkisins til heilbrigðisþjónustu þannig að þau verði sambærileg við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum. Brýnt er að stjórnvöld geri skýra grein fyrir því með hvaða hætti á að skipuleggja heilbrigðisþjónustuna til framtíðar.
Nýr Landspítali
Setja þarf kraft í að ljúka við byggingu nýs Landspítala við Hringbraut og efla um leið sjúkraflutninga og sjúkraflug um land allt.
Stemmum stigu við gjaldtöku
Stefnt skal að því að öll heilbrigðisþjónusta á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum verði gjaldfrjáls og draga markvisst úr kostnaðarþátttöku sjúklinga á kjörtímabilinu. Byrjað verði á að lækka kostnað vegna barna, öryrkja og aldraðra og þjónustu göngudeilda sjúkrahúsanna. Hindrum að hér festist í sessi tvöfalt kerfi í heilbrigðisþjónustunni.
Öflugri heilsugæsla
Styrkja þarf heilsugæsluna, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, þannig að hún verði alltaf fyrsti viðkomustaðurinn. Komið verði á fót þverfaglegu geðheilsuteymum í heilsugæslunni sem tryggi nærþjónustu og snemmtækt inngrip og heilsugæslan fái einnig skýrt forvarnar- og lýðheilsuhlutverk.
Geðheilbrigðismál
Stórátaks er þörf í geðheilbrigðismálum. Hluti af því er að efla rekstur Landspítalans þannig að unnt sé að tryggja viðunandi þjónustu á bráðageðdeild og barna- og unglingageðdeild. Sálfræðiþjónusta verði hluti af almenna heilbrigðiskerfinu þannig að tryggt verði að enginn þurfi að neita sér um slíka þjónustu sökum kostnaðar.
Sálin, tennurnar og aðbúnaður aldraðra
Forgangsverkefni er að sálfræðiþjónusta verði hluti af almennri heilbrigðisþjónustu. Sama gildi um tannlækningar, sjúkra-, tal- og iðjuþjálfun. Fjölga þarf hjúkrunarrýmum og sjá til þess að aldraðir fái lifað með reisn.
Þverfaglegt samstarf og rétturinn til þjónustu
Þróa þarf þverfaglegt samstarf í heilbrigðis- og velferðarþjónustu, það eykur gæði, öryggi og einfaldar aðlögun að þörfum notenda. Skilgreina þarf rétt sjúklinga til þjónustu og setja viðmið og reglur um hámark biðtíma.