YouTube-myndband sem kennt er við „Skatta glöðu skatta Kötu“ hefur farið víða undanfarið Vinstri grænum til lítillar gleði. Myndbandið tekur til ýmsar upphæðir með hvassri gagnrýni á skattahugmyndir VG og er eitt dæmi um nafnlausan kosningaáróður sem flæðir yfir internetið í aðdraganda kosninga.
Enginn er skráður fyrir myndbandinu en því fylgir þessi orðsending:
Vinstri mönnum er tíðrætt um misskipingu eigna eftir að í ljós kom að tekjudreifing er hvergi jafnari en á Íslandi. Nýjasta loforð vinstri manna er að vinna bug á misskiptingu eigna sem ekki verður gert með öðrum hætti en með eignaupptöku eins og alþekkt er þar sem sósíalismi er innleiddur. Hvers konar tekjustofn ert þú?
Þá hefur Facebook-síðan Kosningar 2017 ekki síður hleypt illu blóði í vinstra fólk en þar er skotið grimmt á flesta flokka aðra en Miðflokkinn, Sjálfstæðisflokkinn og Flokk fólksins. Stuðningsfólk þeirra flokka sem verða helst fyrir þessu, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Pírata, leita nú logandi ljósi að þeim sem standa að baki áróðrinum en þær tilraunir virðast enn ekki hafa borið árangur.
Fólk lætur einnig óhikað álit sitt á síðunni í ljós í atugasemdum á henni og óhætt er að segja að reiðin er mikil eins og þessi dæmi bera með sér:
„Hættið þessari mannvonsku og nafnleynd. Þetta er ekki eðlileg umfjöllun.
Hver sponsar þetta?“
„Frábært framtak í formi nafnleyndar og áróðurs. En nokkuð í anda þess „samfélags“ sem síðan stendur fyrir. Svoleiðis samfélag vil ég ekki. Væri flott að fá nafn á hverjir standa fyrir síðunni. Það gæti skýrt margt í framhaldinu.“
„Síða styrkt af Sjálfstæðismönnum einungis til þess að breiða út lygum og annarskonar ógeði um vinstri flokka.“
Píratarnir Andri Þór Sturluson, Halldór Auðar Svansson og Hákon Helgi Leifsson brugðust við nafnlausum áróðri sem þessum í aðsendri grein í Fréttablaðinu nýlega þar sem þeir sögðu eitrað fyrir lýðræðinu á samfélagsmiðlum með nafnlausum áróðri.
Þá hvöttu þeir alla stjórnmálaflokka til þess að hafa slíkum vinnubrögðum og sverja svona lagað af sér. Egill Helgason hefur einnig gert auglýsingar Kosningar 2017 að umfjöllunarefni:
Markauglýsingar á YouTube um Skatta-Kötu og ómælda kyngetu gamallra karla