„Fimmtíu milljón króna viðskipti eru ekkert langt frá venjulegu fólki. Fólk kaupir íbúðir fyrir fimmtíu milljónir. Það er fullt af lífeyrisþegum sem eiga fimmtíu milljónir. Það er ekkert verið að gambla, það er verið að fjárfesta,“ sagði Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Ræddi hann, ásamt Helgu Völu Helgadóttir oddvita Samfylkingarinnar, um lögbann sýslumanns á umfjöllun Stundarinnar um viðskipti Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins þegar Bjarni var þingmaður Sjálfstæðisflokksins fyrir hrun.
Í umræðunum í þættinum í morgun var komið inn á ýmis atriði í málinu, Sjálfstæðismenn hafa verið gagnrýndir fyrir að veigra sér frá því að ræða efnislega um umfjöllun Stundarinnar fyrir utan fyrstu fréttina sem fjallaði um sölu Bjarna á eignum í Sjóði 9. Barst umræðan að 50 milljóna króna kúluláni Bjarna sem var fært yfir á eignarhaldsfélag föður Bjarna. Helga Vala sagði að umfjöllunin í heild sýndi að raunveruleiki Bjarna væri langt frá raunveruleika meðalfólks:
Ég held að það sé að renna upp fyrir almenningi hversu langt frá meðalborgaranum Bjarni er, í sínum fjármálagjörningum. Þarna eru 50 milljónir sem hann sleppur við, þ.e.a.s. sjálfskuldarábyrgðin sem að fellur niður. Hann selur bréf fyrir 50 milljónir sem hann man ekki alveg eftir. Það eru þessi korn sem að hafa áhrif. Þetta sýnir hvað er ofboðslega mikil misskipting, hvað hans raunveruleiki er langt frá raunveruleika meðalfólks,
sagði Helga Vala. Þessu andmælti Brynjar, sagði hann að viðskipti sem fimmtíu milljón króna viðskipti væru ekkert fjarlægt upphæðum sem venjulegt fólk notar í viðskiptum. Þar að auki vissi hann ekki hvað væri satt í þessum fréttum.
„Það hefur ekki verið hrakið af honum [Bjarna]. Heldur þú að þeir séu að bera fram ósannar fréttir?“ spurði Helga Vala. Þá svaraði Brynjar:
Ég veit ekkert. Við skulum ekki vera að ræða þetta. Við höfum engin gögn fyrir framan okkur um þetta.
-„En Stundin var að fjalla um þetta,“ sagði Helga Vala.
Brynjar sagði þá:
Við höfum engin gögn en Stundin segir þetta. Það breytir engu ef það var einhver sjálfskuldarábyrgð? Var skuldin greidd? Kemur það fram? Veistu það?
Helga Vala: „Ég veit ekkert um það.“
Brynjar: „Já þá skulum við ekkert vera að tala um þetta. Sjálfskuldarábyrgð getur verið breytt í einhverja aðra ábyrgð. Við skulum ekkert vera að fjalla um þetta.“
Helga Vala spurði á móti hvers vegna Bjarni hafi þá ekki svarað Stundinni líkt og komi fram í Fréttablaðinu í dag. Brynjar sagði þá:
Við skulum ekkert vera að ræða eitthvað svona. Hann hefur bara sagt að það er ekkert óeðlilegt við þessi viðskipti. Það hefur verið farið yfir þetta og þá skulum við bara enda þá umræðu. Ég veit ekkert hverju hann [Bjarni] hefur svarað nákvæmlega.
Barst þá umræðan aftur að upphæðunum í viðskiptum Bjarna. Spurði Sigmar Guðmundsson þáttastjórnandi hvort þetta væri merki um að Bjarni væri ekki með innsýn inn í fjármál venjulegra borgara. Því svaraði Brynjar:
Jú, en þetta eru ekkert stórkostlega mikil peningar sem þarna er um að ræða. Sko menn koma víðsvegar að. Staða manna fjárhagslega er mjög mismunandi og ég er bara að segja að hún er ekkert fjarri einhverjum almenningi. Fullt af fólki á þetta mikla peninga. Hann kemur bara úr atvinnulífi, aðrir annarsstaðar að. Það er ekkert merkilegt við það. Hann er ekkert fjarri almenningi. Þetta er bara venjulegur maður sem fer í viðskiptalífið, fer svo á þing. Kemur sér svo út úr öllu þegar hann verður formaður flokksins. Þetta er allt eðlilegt og ekkert fjarri einhverjum almenningi.