„Eru allir búnir að gleyma því hvernig látið var þegar „lekið“ var upplýsingum um vafasaman mann sem stór hópur stóð opinberlega þétt með og krafðist að fengi sérstaka og óvenjulega fyrirgreiðslu,“
segir leiðarahöfundur Morgunblaðsins í dag, en þar heldur Davíð Oddsson ritstjóri að öllum líkindum á penna. Vitnar Davíð í bloggfærslu Páls Vilhjálmssonar þar sem talað er um tímasetninguna á lögbanni Glitnis á umfjöllun Stundarinnar um viðskipti Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins þegar hann var þingmaður fyrir hrun. Spyr Páll hvers vegna það hafi verið beðið í heila viku með að setja lögbann á umfjöllunina, hvort það hafi verið til að leyfa „slúðri“ Stundarinnar að grassera áður en lögbannið var sett á til þess að valda Sjálfstæðisflokknum hámarksskaða.
Davíð segir að ólíkt því sem gerðist í lekamálinu, þegar aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur lak upplýsingum um hælisleitanda til fjölmiðla, séu viðbrögðin allt önnur í dag þegar ljóst sé að gögnum hafi verið lekið úr Glitni HoldCo:
Hvar voru allir riddarar málfrelsisins þá? Þeir sáu um undirspilið fyrir ríkissaksóknara og umboðsmanninn! Þeir sömu sem nú nota hina nýuppgötvuðu „leyndarhyggju“ um flest mál til að leyna því hve fátt þeir hafa fram að færa, voru týndir þá. Og hvar er saksóknarinn núna? Er embætti hans orðið hreint dynta- og duttlungaembætti?,
spyr Davíð. Vitnar hann svo í orð Ingólfs Haukssonar, framkvæmdastjóra Glitnis HoldCo, sem sagði við Morgunblaðið að upplýsingarnar sem Stundin, Guardian og Reykjavik Media hafi unnið uppúr komi klárlega úr kerfum Glitnis fyrir hrun og hann óttist að þar megi upplýsingar um fjölda viðskiptamanna, það sé aðalástæðan fyrir lögbannsbeiðninni. Davíð segir svo að lokum:
Það blasir því við að upplýsingaþjófarnir hafa gögn um þúsundir manna en velta sér aðeins upp úr einu nafni til að reyna að afbaka yfirstandandi kosningar.
Og Ríkisútvarpið tekur fullan þátt í leiknum eins og gegn öðrum forsætsráðherra fyrir rúmu ári og viti menn, þá einmitt í samstarfi við sömu kumpána og núna. Þetta ástand getur vart ömurlegra verið.