„Sama hver óskaði eftir eða þrýsti á lögbannið á fréttir Stundarinnar og sama hver hagnast eða tapar á þeim gjörningi þá er gjörsamlega óþolandi að kosningar um mikilvæg málefni þjóðarinnar séu teknar í gíslingu af þessu máli.“
Þetta segir Biggi lögga í stuttum pistli á Facebook-síðu sinni. Þar tjáir hann sig um lögbann sem sýslumaður setti á Stundina. Telur Biggi, sem nú er í framboði fyrir Framsóknarflokkinn að ákvörðun um lögbann sé árás á lýðræðið.
„Sama hvort þeir sem standa fyrir þessu eru með eða á móti einstaka stjórnmálaflokkum eða mönnum þá var þessi aðgerð þegar upp er staðið alvarleg árás á lýðræðið. Bæði hvað snertir hið mikilvægt tjáningarfrelsi blaðamanna og rétt þeirra til að miðla upplýsingum, sem og rétt almennings til að taka upplýsta ákvörðun um þátttöku þeirra í að móta framtíð þjóðarinnar.“
Biggi lögga bætir við:
„Á síðasta sólarhring hefur komið í ljós að allir sem ljáð hafa skoðun sína eru mótfallnir þessari lögbannskröfu. Allir! Það hlýtur því að vera krafa þjóðarinnar að Glitnir Holdco sýni henni þá virðingu að draga þessa kröfu til baka án tafar. Þið verðið að sýna af ykkur þann manndóm og dug að sleppa þjóðinni lausri.“