fbpx
Fimmtudagur 24.júlí 2025
Eyjan

Áherslur flokkanna: Umhverfismálin

Ari Brynjólfsson
Miðvikudaginn 18. október 2017 16:54

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyjan mun fram að kjördegi bjóða framboðum sem taka þátt í Alþingiskosningunum 28. október næstkomandi að svara spurningum um ýmis málefni, allt frá heilbrigðismálum til hvað flokkarnir telji að kjósendur eigi að varast.

Í dag er spurt:

Hver er stefnan í umhverfismálum?

Svörum flokkanna er raðað eftir listabókstaf framboðsins.

 

Björt framtíð – X-A

 

Björt framtíð er græn framtíð. Umhverfisvernd og sjálfbær nýting náttúruauðlinda er undirstaða efnahagslegrar velferðar Íslands til framtíðar. Náttúran á alltaf að njóta vafans. Björt framtíð vill ekki sjá frekari uppbyggingu mengandi stóriðju hér en leggur þess í stað mikla áherslu á að við nýtum öll tækifærin sem felast í grænni nýsköpun og hátækniiðnaði mun betur en gert er í dag. Sjávarútvegurinn hefur til dæmis verið að ná frábærum árangri í fullvinnslu aukaafurða og bættri hráefnisnýtingu með tilheyrandi aukningu í verðmætasköpun innan geirans. Við viljum sjá landbúnaðinn og aðra atvinnugeira þróast hratt í sömu átt.

Loftslagsmálin eru í forgrunni hjá Bjartri framtíð og leggur mikla áherslu á að stjórnvöld og samfélagið allt vinni saman að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í takt við skuldbindingar Ísland í Parísarsamkomulaginu.

Það er ljóst að Ísland þarf að draga úr losun um allt að einni milljón tonna CO2 fyrir 2030. Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra hefur unnið ötullega að gerð nýrrar aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum til 2030 þar sem lykilmarkmið og mælanlegar aðgerðir til að ná þeim eru sett fram. Björt framtíð vill stefna að lágkolefnishagkerfi fyrir 2050 og afkola eins marga geira og gerlegt er fyrir árið 2040. BF er því alfarið á móti olíuvinnslu á norðurslóðum. Heimskautavistkerfin eru þar að auki mjög viðkvæm og við viljum vernda þau og berjast gegn frekari súrnun hafsins.

Náttúruvernd er annað lykilstef Bjartrar framtíðar. Björt framtíð styður stofnun miðhálendisþjóðgarðs enda nauðsynlegt að varðveita náttúruverðmæti miðhálendisins sem eru einstök á heimsvísu. Flokkurinn telur það lykilatriði að heimamenn í þeim sveitarfélögum sem hafa skipulagsvald á miðhálendinu komi að því að skapa umgjörðina og móta verndar- og stjórnunaráætlun í miðhálendisþjóðgarði. Auk mikilvægi náttúruverndar sem undirstöðu stofnunar miðhálendisþjóðgarðs leggur Björt framtíð áherslu á að sjálfbær hefðbundin nýting líkt og sjálfbær beit og sjálfbærar veiðar rúmist innan þjóðgarðsins.

Yfir helmingur af landinu okkar er vistfræðilega í mjög lélegu ástandi. Sum svæði eru enn að rofna og losa gríðarlegt magn kolefnis út í andrúmsloftið. Það er ekki ásættanlegt að árið 2017 sé jarðvegsrof og illa farin vistkerfi enn stærsta umhverfismál Íslands. Björt framtíð leggur mikla áherslu á að gerð verði heildstæð landsáætlun um hvernig megi bæta landgæði með fjölbreyttum landgræðslu- og skógræktaraðgerðum og byrjað verði að vinna að lykilverkefnum áætlunarinnar og tryggja þeim fjármagn strax á næsta ári, í samvinnu við bændur og aðra hlutaðeigandi.

 

Framsóknarflokkurinn – X-B

 

Við viljum skynsamlega og sjálfbæra nýtingu á gæðum jarðar sem skaði ekki hagsmuni komandi kynslóða. Við teljum að allar innlendar náttúruauðlindir skuli óskorað lúta íslenskri stjórn.

Miklu skiptir að komið verði í veg fyrir átroðning á viðkvæmri náttúru landsins, með bættu skipulagi í móttöku og aðgengi fólks. Taka þarf á stýringu ferðamanna með hliðsjón af reglum almannaréttar.

Á ferðamannastöðum þarf að leggja þarf áherslu á stjórnunar- og verndaráætlanir sem fjallar m.a. um landvörslu, vöktun, uppbyggingu og fræðslu. Jákvæð ímynd landsins byggist á upplifun sem tengist hreinleika og sérkennum þess.

 

Viðreisn – X-C

 

Ísland býr yfir einstakri náttúru og ríkulegum auðlindum sem ber að virða og varðveita. Skynsamleg og sjálfbær nýting náttúru og auðlinda er undirstaða velsældar. Stefnu í umhverfis- og auðlindamálum og ákvarðanir um ráðstöfun og nýtingu á að byggja á rannsóknum.

Ákvarðanir um óafturkræfa ráðstöfun umhverfis og auðlinda eiga að byggjast á heildstæðu mati á þjóðhagslegum ávinningi og afleiðingum, þar með talið umhverfisáhrifum. Verðmæti ósnortinnar náttúru verði viðurkennt.

Heildstæð auðlindastefna
Ríkið móti heildstæða auðlindastefnu til langs tíma þar sem umhverfisvernd, heildarhagsmunir samfélags, hagsmunir sveitarfélaga, fjárfesting í innviðum og hagsmunir komandi kynslóða eru í forgrunni. Sett verði fram nýtingarstefna um auðlindir sem byggist á vísindalegum grunni.

Kortleggja þarf umfang auðlinda og stöðu nýtingar, ásamt því að forgangsraða áætlunum um rannsóknir, nýtingu og vernd. Markmiðið er sjálfbær nýting og samræmt umfang nýtingar og gjaldtöku.

Efla þarf samvinnu milli einstaklinga, fyrirtækja og hins opinbera um nýtingu auðlinda. Taka á tillit til sjónarmiða um náttúruvernd, þannig að saman fari heilbrigð samkeppni, framþróun og aukin hagsæld. Leggja ber áherslu á að nýta afurðir auðlinda sem best m.a. með áherslu á nýsköpun.

Markaðsgjald
Markaðstengt afgjald verði tekið upp fyrir nýtingu auðlinda í almannaeigu. Afgjaldið nemi að lágmarki þeim umhverfiskostnaði sem nýtingin veldur. Með því móti verði tryggt að meiri hagsmunum verði aldrei fórnað fyrir minni við ákvarðanir um nýtingu umhverfis og auðlinda.

Ísland taki virkan þátt í að berjast gegn hnattrænum umhverfisvandamálum, eins og loftslagsbreytingum, með virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi gegn þeim.

Einstök náttúra og verðmæt í sjálfu sér
Samræma þarf vernd og nýtingu á náttúrverndarsvæðum hvort sem er til ferðamennsku, samgangna, orkuvinnslu eða annars atvinnurekstrar, svo að langtímahagsmuna íslensks samfélags sé gætt. Tekið verði upp afgjald í ferðaþjónustu til að stuðla að ábyrgri aðgangsstýringu, uppbyggingu innviða og vernd náttúru landsins.

Auðlindir hafsins
Ísland verði áfram í forystu um sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins og  aukna verðmætasköpun. Tekið verði upp markaðstengt auðlindagjald í sjávarútvegi. Íslendingar beiti sér af afli gegn mengun hafsins varðandi þrávirk efni og aðra mengunarvalda.

Auðlindir landgæða
Styðja þarf við umhverfisvænan og fjölbreyttan landbúnað á þann hátt að stuðningskerfið hvetji til landverndar og sjálfbærra framleiðsluhátta. Nýta skal jákvæða efnahagslega hvata og ráðgjöf til að breyta álagi á landsvæði og stýra beit sauðfjár og hrossa. Ráðist verði í aukna skógrækt og endurheimt votlendis.

Jarðrænar auðlindir
Vinna þarf verðmætalíkan fyrir jarðrænar auðlindir með það fyrir augum að þeir sem fái heimild til að nýta þær á samkeppnislegum forsendum séu skuldbundnir til að greiða sanngjarnt auðlindagjald fyrir afnotaréttinn. Gera þarf arðsemiskröfu til nýrra virkjana út frá heildarhagsmunum þjóðarinnar. Stuðla ber að fjölnýtingu jarðvarma og nýsköpun.

Rannsaka þarf grunnvatnsauðlindina og koma í veg fyrir mengun hennar af mannavöldum. Koma þarf böndum á vinnslu jarðefna á yfirborði og á sjávarbotni og stöðva skemmdir sem þær valda á sérstæðum jarðminjum og landslagi. Gæta þarf hagsmuna Íslands vegna hafsbotnsréttinda utan 200 mílna efnahagslögsögu.

Orkuskipti
Loftlagsbreytingar af mannavöldum eru hnattrænn umhverfisvandi enda virðir mengun engin landamæri. Mikilvægt er að Ísland taki virkan þátt í baráttunni gegn þessum vanda í alþjóðlegu samstarfi. Endurheimt votlendis, rafvæðing bílaflotans, vistvæn orka til skipaflotans, framleiðsla á endurnýjanlegri orku og aukin skógrækt eru sóknarfæri sem samræmast alþjóðlegum skuldbindingum Íslendinga.

Sett verði metnaðarfull markmið um orkuskipti íslenska hagkerfisins og þeim fylgt eftir með hagrænum hvötum þannig að einstaklingar og fyrirtæki leiti hagkvæmustu leiða til að ná settu marki.

Áhersla á hagræna hvata
Koma þarf á samræmdu kerfi grænna skatta sem fela í sér eðlilegar álögur á mengandi starfsemi en skapa jafnframt hvata til samdráttar í losun og annarra mótvægisaðgerða. Tryggt verði að sá sem mengar borgi.

 

Sjálfstæðisflokkurinn – X-D

 

Umhverfis- og auðlindamál

  • Við ætlum að vera áfram í fremstu röð í umhverfismálu
  • Sátt um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda
  • Gjaldtaka við náttúruperlur
  • Sanngjarnt gjald fyrir nýtingu auðlinda í eigu ríkisins
  • Bætt raforkuflutningskerfi
  • Nýtum vistvæna orku
  • Ekki skal leggja loftlínu fyrir raforku yfir miðhálendið

Ísland er til fyrirmyndar í umhverfismálum en við getum gert betur. Við ætlum að fylgja eftir metnaðarfullum markmiðum í loftslagsmálum og gæta jafnvægis milli nýtingar og náttúru.

Sjálfstæðisflokkurinn mun beita sér fyrir víðtækri sátt um nýtingu náttúruauðlinda. Standa vörð um náttúruna og gæta þess að hún sé nýtt með sjálfbærum hætti og með virðingu fyrir náttúrufegurð og lífríki. Það mun auka lífsgæði og velferð þjóðarinnar.

Gæta þarf að náttúruperlum landsins og heimila gjaldtöku til að vernda og stýra aðgangi ferðamanna að viðkvæmum svæðum. Skynsamleg og hagkvæm nýting
náttúruauðlinda er að jafnaði best tryggð með því að nýtingar- og afnotaréttur sé í höndum einkaaðila, en nýtingin þarf að vera innan sjálfbærra þolmarka með sama hætti og gilt hefur um sjávarútveg.

Ráðstöfun nýtingarréttinda á auðlindum í opinberri eigu skal vera gagnsæ með almannahag að leiðarljósi. Virða ber eignar- og nýtingarrétt einstaklinga á lögvernduðum auðlindum og ekki grípa til þjóðnýtingar eða skerðingar á réttindum einstaklinga þegar slíkt er ekki brýn nauðsyn vegna þjóðarhags.

Sjálfstæðisflokkurinn styður atvinnuuppbyggingu með hagkvæmri nýtingu orkuauðlinda, en sjálfbærni hennar og virðing fyrir náttúrunni er ófrávíkjanlegt
skilyrði. Í því skyni er brýnt að bæta raforkuflutningskerfi landsins. Við viljum nýta samkeppnisforskot umhverfisvænnar orku og leggja okkar af mörkum í þágu hnattrænnar sjálfbærni í orkumálum.

Fylgja skal í einu og öllu því ferli sem kveðið er á um í lögum um rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Í því felst að ekki verði vikið frá kröfum um virkt umhverfismat á öllum stigum. Einnig að leitað verði sátta á sem breiðustum grundvelli og að tekið verði tillit til athugasemda frá almenningi, fagfólki og hagsmunaaðilum eftir að tillögur verkefnastjórnar liggja fyrir.

Miðhálendi Íslands er einstakur staður á heimsvísu, óspillt víðerni sem illa má við raski. Mikilvæg mannvirkjagerð, líkt og fyrir flutningskerfi raforku, yrði þar til svo mikilla lýta, að allar aðrar leiðir hljóta að koma fyrst til álita.

Náttúruvá vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum verður að taka alvarlega og við þurfum að leggja okkar af mörkum í þeim efnum. Sjálfstæðisflokkurinn vill að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda með minni bruna og kolefnisbindingu með eflingu gróðurlenda.

 

Flokkur fólksins – X-F

 

Auka ber vernd íslenskrar náttúru, fara með gát í virkjanamálum og láta náttúruna ætíð njóta vafans.

 

Píratar – X-P

 

Sjálfbærni er leiðarstef Pírata.
Við viljum Ísland verði í fararbroddi í umhverfismálum
Á undanförnum áratugum hefur orðið ljóst að mannkynið er að ganga verulega á auðlindir jarðar og náttúru með fyrirsjáanlega hrikalegum afleiðingum fyrir komandi kynslóðir. Ábyrg umgengni við náttúruna og sjálfbær nýting auðlinda eru nauðsynleg forgangsmál. Tökum fullt tillit til alþjóðaviðmiða og samninga í umhverfismálum og leyfum náttúrunni að njóta vafans. Framfylgja skal megingildum sjálfbærrar þróunar í verki og sýna metnað til að uppfylla Parísarsáttmálann.

Í nýrri stjórnarskrá sem Píratar vilja taka upp segir:

Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda. Í því felst að fjölbreytni lands og lífríkis sé viðhaldið og náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum. Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og gildi náttúrunnar og hagsmunir komandi kynslóða séu virt.

Miðhálendisþjóðgarður

Miðhálendið er ein dýrmætasta perla landsins. Þar má finna eldfjöll, jökla, vatnsmiklar ár og fossa, litrík háhitasvæði, víðfeðm hraun og svartar sandauðnir sem kallast á við viðkvæmar gróðurvinjar. Saman mynda þessi náttúrufyrirbæri stórbrotnar landslagsheildir á einum stærstu víðernum Evrópu. Þessa þjóðargersemi þarf að vernda til framtíðar.
Í nýrri stjórnarskrá segir:

Með lögum skal tryggja að allir hafi aðgang að óspilltri náttúru.

Styðjum við rafbílavæðingu

Píratar vilja stuðla að rafbílavæðingu Íslands, m.a. með því að huga að innviðum og með fjárhagslegum ívilnunum sem stefni að því að auka hlutfall rafbíla. Almenn orkumála- og umhverfisstefna ætti að innihalda markmið um rafbílavæðingu og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að ná þeim markmiðum.

 

Alþýðufylkingin – X-R

 

Alþýðufylkingin telur gróða- og hagvaxtarkröfu kapítalismans vera stærstu ógnina við umhverfið og raunar teljum við ekki raunhæft að boða bæði kapítalískan hagvöxt og umhverfisvernd samtímis. Við viljum innleiða endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum, iðnaði, landbúnaði og skipaflota, við viljum stöðva stóriðjustefnuna og við viljum ekki leggja rafmagnssæstreng til Skotlands. Við viljum gera starfsfólki fyrirtækja kleift að setja fyrirtækjum umhverfisstefnu og fylgja henni eftir. Við viljum koma landbúnaði í sjálfbært horf þar sem m.a. verði hætt að ræsa fram land sem ekki er nýtt til ræktunar og að skógrækt verði aukin. Við viljum draga úr ágangi ferðamanna á viðkvæmri náttúrunni.

 

Samfylkingin – Jafnaðarmannaflokkur Íslands – X-S

 

Höfuðáherslur Samfylkingarinnar í umhverfismálum á næsta kjörtímabili mál telja fram í þremur liðum: loftslag, þjóðgarður, plast.

1) Loftslagsváin er ekki lengur fjarlæg framtíð. Hún vofir yfir. Í fréttum sumarsins og haustsins eru fellibyljir, flóð og þurrkar – og hér heima stafar höfuðatvinnuvegi okkar hætta af súrnun sjávar, sem þynnir eða leysir upp kísilvarnir smádýra og getur leitt til meiriháttar röskunar og eyðileggingar í nytjastofnum okkar.

Baráttan gegn loftslagsvá er alþjóðleg, og ekki eru til neinar séraðgerðir sem minnka okkar höfuðvanda, súrnunina. Samfylkingin vill að Íslendingar standi sem verða má við skuldbindingar sínar samkvæmt síðari Kýótósamningnum, sem rennur út 2020, og lýsir eindregnum stuðningi við markmið Evrópusambandsins, Noregs og Íslands um 40% samdrátt losunar í áföngum fyrir 2030. Það verður ekki léttur leikur og þar þurfa allir að leggjast á eitt, almannavaldið á alþingi, í ríkisstjórn og sveitastjórnum, atvinnufyrirtækin, félagasamtök og allur almenningur.

Í stuttu máli er í húfi framtíð okkar og barnanna okkar. Munum líka að fyrir Ísland  er ekki einungis um að tefla gefin fyrirheit, orðspor og heiður – heldur einnig beinharða peninga. Hafi markmið ekki náðst þarf að kaupa loftslagskvóta fyrir það sem munar. Þegar er útlit fyrir að vanefndir Kýótó-fyrirheitanna kosti okkur að  minnsta kosti milljarð króna á komandi kjörtímabili. Og enn vex heildarlosun frá Íslandi – þótt stóriðjan sé ekki reiknuð með.

Lengi hefur skort aðgerðaáætlun um samdrátt í losun, þar sem hverri atvinnugrein og samféælagsgeira eru sett ákveðin markmið. Slíka áætlun þarf að semja og samþykkja strax – í sem allra víðtækustu samráði. Nefna má að við endurskoðun búvörusamnings framundan þarf að semja ákvæði um samdrátt losunar í greininni og bindingu með endurheimt landgæða. Stefnan um Græna hagkerfið – vöxt atvinnulífs án umhverfisspjalla – er mikilvægur vegvísir.

Samgöngurnar eru nærtækar í þessu efni, sérstaklega bílaflotinn sem endurnýjast hratt. Til að stuðla að orkuskiptum þar verður að leggja til innviði fyrir nýjar tegundir eldsneytis, einkum rafmagn, og draga úr heildarnotkun eldsneytis með stórauknum almannasamgöngum. Við teljum sjálfsagt að setja tímamarkmið um lok orkuskipta í bifreiðasamgöngum, og minnum á að á þingi milljónaríkisins Frakklandi er nú verið að ræða frumvarp umhverfisráðherrans um að ljúka slíkum skiptum fyrr 2040. Með þessum hætti þarf að skipuleggja breytingar á öllum sviðum þar sem losun fer fram.

Íslenskar aðstæður eru slíkar að auk samdráttar kemur binding kolefnis til greina til að draga úr heildarlosun í nokkurm mæli og gæti hugsanlega skilað um 10–20% heildarsamdráttar. Við þurfum að setja kraft í fræðilegan og tæknilegan þátt þessara aðferða, ekki síst vegna þess að helstu aðferðir til bindingu felst í  endurheimt landgæða, sem í sjálfu sér eru verðug samfélagsleg markmið. Um leið þurfum við Íslendingar að átta okkur á þvi að slíkar aðferðir koma ekki í staðinn fyrir verulegan samdrátt í neyslu jarðefnaeldsneytis.

 

2) Samfylkingin styður eindregið stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Með fjölbreytilegum þjóðgarði má tryggja varðveislu hinna miklu náttúruverðmæta á miðhálendinu og stuðla að því að náttúra Íslands verði í framtíðinni sjálfbær uppspretta atvinnu, arðs og upplifunar fyrir gesti og heimamenn.

Þetta er eitt helsta friðlýsingarverkefni komandi kjörtímabils, og mikilvægt náttúruverndar-, atvinnulífs- og byggðamál. Um stjórnsýslu og skipulag getur Vatnajökulsþjóðgarður verið bæði forveri og fyrirmynd. Við stofnun þjóðgarðsins verður miðhálendið verður ein skipulags- og stjórnunarheild með aðild sveitarfélaga, annarra umhverfisstjórnvalda og fulltrúa félagasamtaka almennings. Samin verður verndaráætlun fyrir miðhálendið í heild, og það skilgreint eftir flokkum IUCN (Alþjóða-náttúruverndarsamtakanna). Margvísleg útivist verður fundinn staður, en útiloka verður frekari uppbyggingu virkjana og orkuflutnings sem ekki fellur að verndarhlutverki þjóðgarðsins, og þær samgöngur og mannvirki sem ekki miðast fyrst og fremst við verndargildi þjóðgarðsins og þarfir gesta hans. Landnytjar með beit koma að sjálfsögðu til greina en er þá bundin við tiltekin svæði og stýrt þar í samræmi við beitarþol.

Á næstunni verða lagðar fram sviðsmyndir um hinn nýja þjóðgarð, og verður þetta starf eitt fyrsta umhverfisverkefnu nýs alþingis, ríkisstjórnar og umhverfisráðherra. Samfylkingin bregst ekki.

 

3) Plastnotkun á Íslandi og í heiminum öllum er orðin alvarlegur umhverfisvandi, ekki síst vegna spjalla sem það veldur á sjávardýrum og gæðum sjávar. Öfugt við mörg önnur úrlausnarefni á sviði náttúru- og umhverfisverndar er hér um að ræða verkefni þar sem almenningur getur beitt sér verulega – með því að minnka plastnotkun, koma plasti í endurvinnslu eða förgum, gera kröfur til framleiðenda og seljenda o.s.frv. Þá þarf engin gríðarleg útgjöld frá stjórnvöldum til að ná verulegum árangri með samstilltu átaki í landinu. Með sérstakri átaksáætlun í fjögur ár – eitt kjörtímabil – getum við öll lagt okkar af mörkum til landsins okkar og lífsins í sjónum.

Samfylkingin hyggst halda áfram að ná árangri í öðrum þáttum umhverfismála og náttúruverndar – með aukinni sorpflokkun, friðlýsingu náttúrusvæða samkvæmt ramma nýju náttúruverndarlaganna, umbreytingum í þágu ferðaþjónustu, auknum og umhverfisvænni samgöngum, svo dæmi séu nefnd á sviði ríkis og sveitarfélaga. Við teljum að það þurfi að efla umhverfisráðuneytið og koma þar fyrir umsjá auðlinda, eins og til stóð með nafnbreytingu þess fyrir nokkrum kjörtímabilum. Við teljum enn fremur að tími sé kominn til þess að líta á hafið sem umhverfisvettvang, þar sem gildi sömu meginreglur umhverfisréttar og stjórnskipunar og á landi uppi.

Við höfum nokkra hríð bent á að í íslensku samfélagi eru tímar stóriðjustefnunnar liðnir. Aðrar atvinnugreinar taka við og þær gömlu fá nýjan ham – með menntun, nýsköpun, tækniframförum, skapandi greinum. Þar eiga önnur viðhorf og aðstæður í umhverfisefnum, náttúruvernd og byggðamálum ekki síst hlut að máli. Samfylkingin fagnar því að mörg önnur stjórnmálaöfl hafa komist að svipaðri niðurstöðum, að ógleymdum ýmsum forystumönnum í atvinnulífinu og þakkar öflugum fræðimönnum og félagasamtökum fyrir mikla vinnu í þessum efnum.

Umhverfismál og náttúruvernd hafa frá upphafi verið rædd í Samfylkingunni. Á stjórnartímum okkar í ríkisstjórn og sveitarfélögum höfum við haft forystu við mikilvæg umhverfisverkefni. Þar má sem dæmi nefna rammaáætlun og  Græna hagkerfið. Náin samvinna við félagasamtök og önnur stjórnmálaöfl hefur vissulega orðið að gagni, en á engan er hallað þegar rifjhað er upp að Samfylkingin samþykkti fyrst stjórnmálaflokka andstöðu við fekari olíuleit og -vinnslu í efnahagslögsögunni, og stuðningi við hugmyndir um þjóðgarð á miðhálendinu.

Við í Samfylkingunni höfum stundum tekist á um umhverfismálefni. Við erum pólitísk samtök allra byggða og höfum í höndum arf jafnaðar- og verkalýðshreyfingar þar sem áherslur á vinnu, velferð, menntun hafa stundum hindrað fullan skilning á erindi umhverfisviðhorfa. Við í Samfylkingunni höfum hins vegar rætt okkur til niðurstöðu á þessu sviði. Við trúum því að nútímalegur jafnaðarflokkur hljóti að halda hátt á loft hinum síungu fánum jafnréttis allra manna, frelsis og bræðralags – og sameina þær kröfur jafnrétti kynjanna og jafnrétti kynslóðanna, með kvenfrelsi og grænni lífssýn.

 

 

Vinstrihreyfingin grænt framboð – X-V

 

Loftslagsmál – Kolefnishlutlaust Ísland 2040 

Ísland á að verða kolefnishlutlaust árið 2040. Hverfa þarf frá áformum um olíuvinnslu, skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir endurnýjanlega orkugjafa, binda kolefni með mótvægisaðgerðum og strika frekari áform um mengandi stóriðju út af borðinu. Ísland á að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að halda hlýnun jarðar undir 1,5°C. Efla þarf rannsóknir á áhrifum hlýnunar á vistkerfi lands og sjávar með sérstakri áherslu á súrnun sjávar en einnig þarf að huga að viðbrögðum vegna hækkunar sjávarborðs um allt land.

Náttúra – Náttúran njóti vafans

Tryggja þarf að gengið verði um náttúruauðlindir Íslands af ábyrgum hætti. Stofna þarf þjóðgarða á miðhálendi og hálendi Vestfjarða og stórefla heilsárslandvörslu. Friðlýsa þarf svæði sem ákvörðuð eru í rammaáætlun og framkvæmdaráætlun náttúruminjaskrár.

Mengun hafs, lofts og lands

Markvisst þarf að draga úr plastnotkun, í umbúðum og annars staðar, og auka endurnýtingu. Kortleggja þarf og bæta eftirlit með notkun hættulegra efna og auka fræðslu til almennings um áhrif þeirra. Draga þarf úr og efla viðbrögð við mengun frá allri mengandi starfsemi. Stórbæta þarf fráveitukerfin á landinu þannig að plast og jafnvel örplast rati ekki lengur til sjávar.

Grænt samfélag

Tryggja þarf umhverfisákvæði í stjórnarskrá, að náttúruauðlindir séu í þjóðareign og nýting þeirra sé í sátt við umhverfi og náttúru. Standa þarf vörð um rammaáætlun. Umhverfissjónarmið þurfa að vega þungt í allri ákvarðanatöku ríkisins og styrkja þarf þær stofnanir sem sinna umhverfismálum. Efla þarf almenningssamgöngur auk uppbyggingar innviða samgöngukerfisis í þágu hjólandi og gangandi sem styðja við samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, auka lífsgæði og bæta mannlíf.

Grænt bókhald

Allar stærri áætlanir ríkisins, rekstur ríkisstofnana, frumvörp og þingsályktanir þarf að meta með tilliti til umhverfissjónarmiða, losunar gróðurhúsalofttegunda og auðlindanýtingar.

Raforkusamningar

Hefja þarf endurskoðun raforkusamninga til stóriðju með það að markmiði að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, fækka mengandi stóriðjuverum, auka fjölbreytni í iðnaði og fjölga í hópi „grænna“ fyrirtækja sem nota raforku á Íslandi.

Berjumst gegn matarsóun

Aukum til muna innlenda matvælaframleiðslu, því mikið af mat skemmist í flutningum. Eflum fræðslu um matarsóun, bæði í skólum og stofnunum. Skoðum kosti þess að setja sérstök gjöld á fyrirtæki og stofnanir sem henda mikið af mat.

 

Sjá einnig:

Þrjú helstu atriðin sem flokkurinn setur á oddinn í kosningabaráttunni

Velferðarmálin og almannatryggingar

Efnahags- og atvinnumál

Mennta- og menningarmál

Utanríkismál

Stjórnkerfið

Það sem kjósendur ættu að varast

Umhverfismál

Þarf að herða refsingar í kynferðisbrotamálum?

Samgöngumál

Á Þjóðkirkjan að vera á fjárlögum?

Stjórnarskráin

Húsnæðismál

Sjávarútvegsmál

Uppreist æra

Málefni krabbameinssjúklinga

Útlendingamál

Landbúnaðarmál

Heilbrigðismál

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Segir hagsmunaskráningu þingmanna gagnslausa í núverandi mynd – „Eins og þeim finnist siðferðisleg viðmið óþörf“

Segir hagsmunaskráningu þingmanna gagnslausa í núverandi mynd – „Eins og þeim finnist siðferðisleg viðmið óþörf“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan á erfitt með að sætta sig við nýjan veruleika í íslenskum stjórnmálum

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan á erfitt með að sætta sig við nýjan veruleika í íslenskum stjórnmálum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan reyndi ekki að koma neinum málum í gegn – var bara á móti öllu

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan reyndi ekki að koma neinum málum í gegn – var bara á móti öllu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Kolla varar Samfylkinguna við – Megn óánægja með flokkinn í sumum hverfum borgarinnar

Kolla varar Samfylkinguna við – Megn óánægja með flokkinn í sumum hverfum borgarinnar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Dineout og Heimar umbreyta upplifun gesta í mathöllum – ein greiðsla, margir staðir

Dineout og Heimar umbreyta upplifun gesta í mathöllum – ein greiðsla, margir staðir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Hvenær tekur maður þátt í málþófi og hvenær ekki?

Orðið á götunni: Hvenær tekur maður þátt í málþófi og hvenær ekki?