Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra og náfrændi Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, segir á vef sínum að „óvinaher“ Bjarna leggi sig fram um að gera ákvörðun sýslumanns, um að setja lögbann á fréttatlutning Stundarinnar upp úr gögnum frá slitabúi Glitnis, að „flokkspólitísku máli eða óvildarmáli“ í garð Bjarna. Aðför þessi hafi síðan alþjóðlega hlið með aðkomu breska blaðsins The Guardian.
Björn segir RÚV hafa tekið virkan þátt í aðförinni: „Ríkissjónvarpið sendi einnig í höfuðstöðvar Stundarinnar fréttamann sinn Ægi Þór Eysteinsson sem var spyrill í samtalsþætti við Bjarna í ríkissjónvarpinu án þess að vita neitt að gagni um málefni en var þeim mun kappsamari um að sækja að Bjarna persónulega.“
Ráðherrann fyrrverandi segir þetta þó allt á brauðfótum og ekki halda vatni: „Kenningin um að Bjarni Benediktsson standi að baki örþrifaráðinu sem gripið var til gegn Stundinni mánudaginn 17. október heldur ekki vatni. Hún er því enn ein brauðfótaaðförin að Bjarna.“
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gamalreyndur blaðamaður og ritstjóri, fordæmir lögbannið á Facebook-síðu sinni og gefur lítið fyrir þær skýringar að banninu sé ætlað að vernda viðkvæmar fjármálaupplýsingar þúsunda eftir að búið var að birta fjölda frétta um Bjarna:
„Það gengur gegn öllum hugmyndum mínum um frjálsa fjölmiðlun að sýslumenn samþykki kröfu fjársterkra aðila um lögbann á fréttir og fréttaskýringar. Hér skiptir engu þótt fjölmiðlar hafi verið óvægnir eða ósanngjarnir í umfjöllun sinni.
Það er einnig athyglisvert að erlendir vogunarsjóðir, sem eiga Glitni HoldCo, skuli bíða í 10 daga með að óska eftir lögbanni. Það er holur hljómur í fullyrðingum um að verið sé að vernda viðkvæmar persónulegar fjárhagsupplýsingar þúsunda eftir að þeir höfðu beðið rólegir á meðan fjölmiðlar fluttu tugi frétta, dag eftir dag, af formanni Sjálfstæðisflokksins.“