Kvennahreyfing Samfylkingarinnar boðar til fundar um stórsókn gegn ofbeldi þriðjudaginn 17. október. Fundurinn verður haldinn á veitingastaðnum Hlemmi Square, Laugavegi 105, og hefst hann klukkan 17:00. Fundurinn er öllum opinn.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samfylkingunni. Þar kemur einnig fram að Samfylkingin hafi sett fram áætlun þar sem tiltekið er að setja skuli einn milljarð króna á ári á komandi kjörtímabili í átak til að takast á við ofbeldi í íslensku samfélagi.
„Síðustu daga hefur ótölulegur fjöldi kvenna um heim allan risið upp og greint frá kynferðislegri áreitni og ofbeldi í öllum geirum samfélagsins. Enn og aftur er bent á hvers konar samfélagslegur faraldur ofbeldi gegn konum er. Í aðgerðaráætlun Samfylkingarinnar er lögð rík áhersla á að takast á við og sporna gegn kynbundnu ofbeldi og kynferðislegu, auk annars ofbeldis. Nú verður ekki lengur við unað, nú verðum við að grípa til aðgerða.“
Á fundinum flytja ávarp Andrea Eyland, Helga Lind Mar og Edda Ýr Garðarsdóttir sem allar hafa verið virkar í femínískri baráttu gegn ofbeldi, auk Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, varaformanns Samfylkingarinnar og formanns Ofbeldisvarnarráðs Reykjavíkurborgar. Að þeim erindum loknum fara þrír frambjóðendur Samfylkingarinnar, þau Ágúst Ólafur Ágústsson, Kolbrún Birna Hallgrímsdóttir og Helga Vala Helgadóttir, yfir áherslur í baráttunni gegn ofbeldi og hversvegna Samfylkingin hefur sett það á stefnuskrá sína að hefja stórsókn gegn ofbeldi. Þá verður fundurinn í beinni útsendingu á netinu.